Kópavogsbær og Vegagerðin hafi brugðist hlutverki sínu

Breiðholt og Vatnsendahvarf í forgrunni. Elliðavatn handan byggðarinnar í Kópavogi.
Breiðholt og Vatnsendahvarf í forgrunni. Elliðavatn handan byggðarinnar í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Kæru íbúasamtakanna Vina Vatnsendahvarfs til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur verið vísað frá í annað sinn. 

Þetta staðfestir Helga Kristín Gunnarsdóttir, stjórnandi Facebook-hóps samtakanna. Kærður var sá úr­sk­urður að ekki yrði fram­kvæmt nýtt um­hverf­is­mat vegna lagn­ing­ar síðasta áfanga Arn­ar­nes­veg­ar. Síðast var málinu vísað frá vegna þess að talið var að ekki væri um formleg samtök að ræða.

Helga Kristín segir að nú hafi málinu aftur á móti verið vísað frá vegna þess að þeir íbúar sem skrifuðu undir hafi ekki búið nógu nálægt gatnamótunum, en íbúar í Jóruseli skrifuðu undir kæruna. Kæran hafi því ekki fengið efnislega meðferð.

„Hefðum við búið í Rjúpufelli hefði málið mögulega verið tekið til skoðunar,“ segir Helga og bætir við að fjöldi fólks úr Fellahverfinu sé þó í hópnum.

Nýju gatnamótin eiga að vera einungis 400 metrum frá gatnamótum …
Nýju gatnamótin eiga að vera einungis 400 metrum frá gatnamótum við Jaðarsel, þar sem oft myndast stífla. Kort/Map.is

Einnig hafi athugasemdir Vina Vatnsendahvarfs, Íbúaráðs Breiðholts og Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur til sveitarfélaganna, varðandi þörf á endurskoðun á umhverfismati frá 2003, ekki verið teknar til greina. Kópavogsbær og Vegagerðin séu því að bregðast hlutverki sínu.

„Stofnanir sem við borgum fyrir, og eiga að þjóna okkur íbúum, sinna því hlutverki ekki lengur.“

Hringtorg raunhæfari kostur

Helga segir, í færslu á facebooksíðu samtakanna, að Kópavogsbær hefði getað bætt umferðarvanda Vatnsendavegs fyrir mörgum árum með því að semja við Reykjavíkurborg um að setja hringtorg við Breiðholtsbraut auk þess sem bærinn hefði getað sett hringtorg við Ögurhvarf í stað umferðarljósa.

Þess í stað hafi verið sett í forgang að leggja Arnarnesveg í gegnum Vatnsendahvarf og stjórnmálamenn í Kópavogi hafi kynnt 3. áfanga Arnarnesvegar fyrir íbúum eins og „gulrótinni sem myndi leysa allan þeirra vanda“.

Það mætti einnig spyrja ráðamenn í Kópavogi hvort Vatnsendavegur hefði ekki frá upphafi þurft að vera tvöfaldur til að anna öllum þessum botnlangagötum sem liggja að honum. Það eru þá í raun skipulagsmistök Kópavogs sem Arnarnesvegur getur aldrei leyst,“ segir í færslunni.

Gatnamót nýja vegarins munu vera ljósastýrð og við Breiðholtsbraut þar sem brautin er einföld. Helga furðar sig á því að ekki skuli hafa verið ráðist í tvöföldun Breiðholtsbrautar fyrst.

„Vegurinn, eins og hann er skipulagður, mun að öllum líkindum skapa fleiri vandamál en hann á að leysa,“ segir hún og bætir við að nýju gatnamótin verði einungis 400 metrum frá gatnamótum við Jaðarsel þar sem oft myndast stífla á háannatímum.

Vísa málinu til umboðsmanns Alþingis

„Síðasta vígið er umboðsmaður Alþingis,“ segir Helga en þau ætla að vísa málinu þangað. Hún segist vongóð um að málið fái efnislega umfjöllun hjá umboðsmanni, sem það hingað til hefur ekki fengið. „Kópavogsbær hefur ekki sýnt neinn áhuga á að ræða við okkur eða taka athugasemdir okkar til greina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert