Læknafélag Íslands hefur skipað starfshóp til að fara yfir breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi og framkvæmd skimunar á leghálsi síðastliðið ár og aðdraganda þeirra. Í ályktun stjórnar LÍ segir að efasemdir hafi komið fram um að niðurstöður skýrslu heilbrigðisráðherra til Alþingis um málið gefi rétta mynd af atburðarásinni og ábyrgðarsviði einstakra aðila.
Skimanirnar voru fluttar frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands til heilsugæslunnar í upphafi árs og greining sýna færð til erlendrar rannsóknastofu. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er hópnum falið að taka saman þau sjónarmið sem fram hafa komið með og á móti nýju fyrirkomulagi. Hann á að skila áliti eigi síðar en 1. október 2021.
Þá sendu forsvarskonur hópsins „Aðför að heilsu kvenna“, sem hefur gagnrýnt nýtt fyrirkomulag leghálsskimana, opið bréf til heilbrigðisráðherra í gær. Þar er þeirri ákvörðun að frá næstu áramótum fari rannsóknarhluti leghálsskimana aftur fram á Íslandi fagnað.
Upplýsingar um ferlið hafi hins vegar verið af skornum skammti og óskar hópurinn eftir svörum við nokkrum spurningum. Þær snúa meðal annars að því hvort Landspítala hafi verið tryggt fjármagn til að sinna greiningum sýna og hvort formlegur undirbúningur sé hafinn. Krafist er að notendur þjónustunnar séu hafðir með í ráðum og þeir upplýstir um stöðu mála.