Svarmi, gagnafyrirtæki á sviði fjarkönnunar, hefur birt myndskeið af þrívíddarlíkani sem fyrirtækið gerði fyrir verkfræðistofuna Verkís.
Í lok maí voru byggðir varnargarðar til að tefja hraunið frá því að flæða niður í Nátthaga og þaðan að ljósleiðara sem hringtengir Reykjanes að Suðurstrandarvegi.
„Við vildum bæði fá upplýsingar um hversu háar stíflurnar voru orðnar á hverjum tíma og lögunina á þeim. Svo vildum við geta fylgst með hvernig hraunið var að vaxa,“ segir Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís, sem var fyrir svörum fyrir hönd vinnuhóps um varnir innviða á Reykjanesi, sem stóð að verkefninu fyrir hönd almannavarna.
„Þarna fengum við í rauninni mjög góðar upplýsingar um hvernig þetta spilar allt saman.“
Með þessum hætti gátu þau fengið allar útlínur af mannvirkjum og hrauni á mismunandi tímum á þrívíðu formi.
„Við gátum í rauninni séð nákvæmlega hvar helstu straumarnir eru og skoðað hvernig stíflan var alveg á lokametrunum áður en flæddi yfir,“ segir Hörn og bætir við að auk þess hafi þetta verið fljótlegasti kosturinn.
Tími skipti í þessu tilfelli miklu máli vegna þess hversu þunnfljótandi hraunið varð þegar það kom að varnargörðunum. Það kom þeim í opna skjöldu vegna þess hversu þykkt og seigfljótandi hraunið hafði verið við neyðarruðningana.
Þá hafi mælingin einnig gefið þeim mun betri og nákvæmari upplýsingar um samspil stíflumannvirkjanna og hraunsins.
„Með því að hafa skönnunina þá vitum við nákvæmlega hæðina á hverjum einasta hól sem myndaðist við neyðarhækkun mannvirkjanna á síðustu metrunum,“ segir hún og á við toppinn á stíflunni.
Því hafi til að mynda ekki verið hægt að senda mælingamann með prik upp á sjálfan varnargarðinn.
„Þetta er fyrsta eldgosið sem við skönnum þannig það var mjög spennandi að sjá að þetta virkaði. Tæknin er ekki ný, við höfum áður búið til líkön sem þessi en umhverfið er framandi,“ segir Sydney Gunnarson, rekstrarstjóri hjá Svarma.
Tæknin sem þau notuðust við nefnist myndmæling sem virkar þannig að tekin er sería af myndum og út frá því er skapað þrívíddarlíkan í tölvu. „Við kortlögðum varnargarðana fimm sinnum á tímabilinu 18. maí til 17. júní,“ segir Sydney.
Í lok maí voru myndaðir varnargarðar í Syðri-Meradölum en í júní var svo hraunflæðið kortlagt í nátthaga eftir að það flæddi yfir stíflurnar.
„Það gerði verkfræðingunum kleift að bera saman gögnin og sjá hverju varnargarðurinn breytti.“
Þau hafi því séð hvernig hraunið flæddi yfir svæðið á þeim dögum sem liðu milli mælinga en endurteknar mælingar Svarma tryggðu að þrívíddarlíkanið væri sem nákvæmast.
Nú eru þau í öðru svipuðu verkefni sem snýr einnig að þrívíddarskönnun á fjöllum og náttúru Íslands en í því verkefni notast þau við aðra tækni: LiDAR-skanna.
Skanninn virkar þannig að hann skýtur leysigeislum út í loftið, lendir á fleti og gríðarlega öflug tölva, IMU, reiknar síðan út hversu langt frá skannanum flöturinn er.
„Við getum þannig búið til gagnasafn sem er nákvæmt upp á nokkra sentímetra,“ segir Sydney en svipaða tegund LiDAR skanna má finna á nýjustu iPhone-símum og iPad-spjaldtölvum Apple.
Myndskeiðið má sjá hér. Sjón er sögu ríkari: