Ótti við kórónuveirusmit aldrei jafn lítill

Fólk á leið í bólusetningu gegn Covid-19. Myndin er úr …
Fólk á leið í bólusetningu gegn Covid-19. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ótti við kórónuveirusmit hefur aldrei verið jafn lítill, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þá mældust ýmsar áhyggjur fólks af faraldrinum eða afleiðingum hans mun minni en áður. 

Fimm kórónuveirusmit greindust utan sóttkvíar í gær, þrjú hjá fullbólusettum og tvö hjá fólki sem hafði ekki verið bólusett að fullu. Mæling Gallup var gerð frá 2. til 12. júlí.

Í Þjóðarpúlsinum kemur fram að áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum hafi síðast verið jafn litlar í lok maí í fyrra. Áhyggjur af efnahagslegum áhrifum hafa aldrei verið jafn litlar í faraldrinum og telur fólk almennt að Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld séu að gera hæfilega mikið. Þeim fækkar sem segja þau vera að gera of lítið. 

Færri forðast það sem áður var forboðið

Þá hafa aldrei jafn fáir sagst finna fyrir kvíða vegna Covid-19. Fólk hefur aðeins einu sinni áður sagst viðhafa minna breyttar venjur vegna Covid-19, í mars í fyrra, og einu sinni í jafn miklum mæli, í júlí í fyrra. 

Fólki sem þvær/sprittar hendur sínar og umhverfi oftar eða betur en í venjulegu árferði fækkar. Hið sama má segja um fólk sem notar grímur eða hanska, forðast faðmlög, kossa eða handabönd, hóstar/hnerrar síður út í loftið eða í lófa, kaupir inn í meira magni en í venjulegu árferði, forðast fjölfarna staði og/eða fjölsótta viðburði, forðast að eiga óþarfa samskipti við annað fólk. Sömuleiðis fækkar þeim sem vinna að heiman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert