Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvatti hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir á upplýsingafundi Almannavarna í dag til að skerpa á umgengnisreglum vegna fjölgunar kórónuveirusmita síðustu daga.
„Við erum búin að því,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, í samtali við mbl.is.
Búið var að aflétta öllum heimsóknartakmörkunum. Ekki verður gripið til ákveðinna takmarkana á heimilunum nú, heldur er frekar um að ræða vinsamlegar ábendingar að sögn Gísla. Aðstandendum og starfsfólki hefur verið tilkynnt í hverju þær felast.
„Það eru þessar persónulegu sóttvarnir, ekki koma í heimsókn ef grunur leikur á smiti og ekki koma ef þú ert nýkominn frá útlöndum,“ segir Gísli.
Þá er mælst til þess að börn komi ekki í heimsókn sem stendur, en það er ekki bannað.
„Þetta eru í raun ábendingar og óskir um að fólk hagi sér skynsamlega,“ segir Gísli. Hann veit ekki til þess að önnur dvalar- eða hjúkrunarheimili ætli að grípa til hertari aðgerða en fylgst verður áfram grannt með þróun faraldursins.