Aðgerðir ekki hertar innanlands

Frá fundi dagsins. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason.
Frá fundi dagsins. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr kafli í baráttunni við Covid-19 er að hefjast að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann telur þó ekki tilefni til að herða aðgerðir innanlands en segir það vera til skoðunar að herða aðgerðir á landamærunum. Þær megi þó ekki vera of íþyngjandi. 

Þetta er meðal þess sem sóttvarnalæknir greindi frá á upplýsingafundi almannavarna í morgun, þeim fyrsta í 49 daga. Hann segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun faraldursins síðustu daga. 

Þórólfur sagði að ef til þessi kæmi að herða aðgerðir innanlands á ný verði líklega stuðst við aðgerðir sem áður hefur verið gripið til. 

Til skoðunar að krefjast PCR-prófa

Varðandi mögulegar hertar aðgerðir á landamærum segir Þórólfur að til skoðunar sé að finna leiðir til að lágmarka hættuna á að veiran berist til landsins án þess þó að það verði of íþyngjandi. Meðal þess sem er til skoðunar er hvort krefja eigi ferðamenn um neikvætt PCR-próf fyrir flug og að taka sýni hjá þeim sem taldir eru líklegri en aðrir til að vera smitaðir, svo sem frá farþegum frá löndum þar sem hætta smiti er talin meiri. 

Yfirvöld hafa ekki bolmagn til að skima alla ferðamenn að sögn Þórólfs þar sem þeir eru einfaldlega of margir. Bólusettir ferðamenn eru sem stendur ekki skimaðir við komuna til landsins, geti þeir framvísað viðeigandi vottorði. Hið sama gildir um ferðamenn sem hafa áður sýkst af Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert