Í eina tíð entust heimilistæki svo að segja endalaust, ryksugur soguðu áratugum saman, ísskápar gengu í erfðir og reka mátti niður tjaldhæla með farsímum. Nú er allt með öðrum brag, ekkert endist lengur en ábyrgðin og þegar kemur að því að gera við kostar það álíka mikið eða meira en ný tæki. Ef hægt er að gera við þau yfirleitt.
Ekki hefur orðið minni tæknibylting í framleiðslu á raftækjum en í tækjunum sjálfum, plast leysir af málma og lím skrúfur og verður æ erfiðara að taka tækin í sundur til að gera við þau. Þegar við bætist að mörg eru þau með innbyggða einskonar smátölvu til að stýra græjunni er þar komið meira sem getur bilað og er erfitt eða ógerningur að gera við. Ekki bætir svo úr skák þegar framleiðendur gera viðgerðarmönnum jafnvel erfitt fyrir.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, undirritaði nýverið tilskipun sem sneri að réttinum til að gera við, eins og það var orðað, en í því felst að framleiðendur tækja, bílar og dráttarvélar þar meðtalin, mega ekki hanna tækin svo að ógerningur sé að gera við þau. Aðallega snýr þessi tilskipun að dráttarvélaframleiðendum vestan hafs, enda hefur sá stærsti í þeim efnum, John Deere, komið í veg fyrir að hægt sé að gera við vélarnar nema hjá viðurkenndum verkstæðum. Tilskipunin er þó einnig túlkuð svo að framleiðendur annarra tækja, til að mynda farsíma, þvottavéla, ísskápa og sjónvarpstækja, þurfi að bregðast við.
Þing Evrópusambandsins samþykkti álíka reglugerð fyrir stuttu, en hún á að gera tækjaeigendum auðveldara að gera við tæki eins og farsíma, fartölvur og spjaldtölvur. Framleiðendum er einnig bannað að stytta líftíma tækja vísvitandi og þurfa að tryggja að hægt sé að gera við tæki eins og þvottavélar, uppþvottavélar, ísskápa, sjónvarpstæki og hárþurrkur í áratug hið minnsta, en með því er átt við að varahlutir og handbækur verði tiltæk þann tíma. Einnig hafa sum baráttusamtök fyrir réttinum til að gera við krafist þess að beinlínis verði bannað að líma tæki saman.
Baráttan fyrir því að hægt sé að gera við raftæki er fyrst og fremst barátta um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og minnka sóun, enda er nærri sextíu milljón tonnum af notuðum raftækjum hent á hverju ári. Takist að lengja líftíma raftækja má draga úr losuninni – ef tekst að lengja hann um eitt ár minnkar útblástur koltvísýrings um 2,1 milljón tonna á ári. Hún snýr þó líka að því að gera fólki kleift að nota tæki sem lengst, til að mynda að skipta um rafhlöðu án þess að kaupa nýjan síma, svo dæmi sé tekið.
Nú er það svo að hægt er að skipta um rafhlöður í flestum símum, en snúið fyrir almenning að gera það, ólíkt því sem var forðum, sællar minningar. Núorðið eru símarnir límdir saman, ekki endilega til að koma í veg fyrir að hægt sé að endurnýja í þeim kram, heldur til að hægt sé að hafa þá sem léttasta, rennilegasta og þynnsta og um leið að rykverja þá og gera jafnvel vatnshelda, sem er orðið nokkuð algengt með farsíma í dag. Það er því líklegt að ef almenningur á sjálfur að geta gert við sitthvað í símanum verði þeir kubbslegri og þyngri. Kannski eins og gamli Nokia-síminn í skúffunni.