Hitinn á landinu náði hvergi 20 stigum í gær. Þar með lauk 20 daga syrpu þar sem hitinn hafði náð 20 stigum. Þetta upplýsir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Á þriðjudaginn fór hitinn í 23 gráður á Egilsstöðum en fór hæst í gær í 16,3 stig á Húsavík. Samkvæmt spám gæti hiti farið aftur yfir 20 stigin í dag.
Aðeins eini sinni áður hefur tuttugu stiga syrpa verið lengri. Það var árið 2012 þegar hitinn náði 20 stigum 23 daga í röð. Þeirri syrpu lauk 18. ágúst, eða rúmum mánuði seinna en að þessu sinni. Metið gæti því fallið síðar í sumar.
Metfall hefur ekki verið teljandi í þessum hitum, segir Trausti. Þó má telja til tíðinda að þetta er hlýjasta júlíbyrjun aldarinnar á Norður- og Austurlandi. Hlýtt hefur verið í Reykjavík en höfuðborgarbúar eru enn að bíða eftir því að hitinn rjúfi 20 stiga múrinn í júlí. sisi@mbl.is