Bitvargurinn lúsmý (Culicoides reconditus), sem er blóðsuga á mönnum og öðrum spendýrum, hefur numið ný svæði á Íslandi. Náttúrufræðistofnun Íslands birti grein um þessa tegund lúsmýs árið 2019 og þá var aðalútbreiðslusvæði þess Suðvesturland upp í Borgarfjörð og austur í Fljótshlíð. Einnig fannst það í Eyjafirði. Nú hefur þess einnig orðið vart m.a. í Stykkishólmi, Húnavatnssýslu og í Fnjóskadal.
Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í vatnalíffræði við HÍ, segir að lúsmýið sé nokkuð algengt í sveitum Suðurlands og í Fljótshlíð. Þá sé það mjög algengt á Vesturlandi, t.d. í Kjósinni, Hvalfjarðarsveit og í Borgarfirði og nú komið víðar.
„Sjálfur var ég bitinn fyrir ári í Miðfirði í Húnavatnssýslu og ég veit að fólk hefur verið bitið í Eyjafirði og í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Svo var ég að frétta af fólki sem var illa bitið í Helgafellssveit,“ sagði Gísli. Hann kveðst telja óhætt að telja að lúsmý sé nú að finna víða inn til landsins á Suðurlandi vestan Markarfljóts, á Vesturlandi og Norðurlandi allt austur í Fnjóskadal. Ekki hefur frést af því utarlega á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum, í Þingeyjarsýslum nema í Fnjóskadal, né heldur á Austfjörðum og Suðausturlandi.
Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, býr í Stykkishólmi.
„Við urðum fyrst vör við lúsmý hér í Stykkishólmi helgina 3.-4. júlí. Þá var mjög stillt veður og hlýtt. Ég hafði aldrei heyrt af lúsmýi hér fyrir þann tíma. Við hér á heimilinu vorum bitin. Ég fór í apótekið í Stykkishólmi og starfsfólkið sagði að mikið hefði verið keypt af vörum gegn mýbiti,“ sagði Róbert. Hann segir ekki fara á milli mála að um lúsmý hafi verið að ræða. „Mér finnst líklegt að fyrst það er hér þá sé það komið víðar,“ sagði Róbert.
Bitvargurinn lúsmý er um 2 millimetrar á lengd en bitmý, mývargur, er miklu stærra eða 8-10 millimetra langt. Bitmýið setur undir sig hausinn eins og vísundur. Það finnst víða um land.
Gísli segir að sjö tegundir lúsmýs finnist hér á landi en aðeins ein þeirra bíti fólk og spendýr. Hinar tegundirnar eru rándýr á öðru mýi. Kvenflugur tegundarinnar sem bítur þurfa blóð til að geta þroskað egg. Fái þær ekki blóð geta þær ekki orpið eggjum.
Lúsmýið getur illa athafnað sig ef það hreyfir vind. Þess vegna verður þess síður vart við sjávarsíðuna en inn til landsins. Gísli benti á að fólk byggi sumarhús sín gjarnan á skjólgóðum stöðum og rækti tré til skjóls við bústaðina. Þar með eru skapaðar góðar aðstæður fyrir lúsmý til að athafna sig. Í híbýlum getur verið gott að hafa viftur til að trufla lúsmýið.