Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að rökrétt væri að takmarka opnunartíma skemmtistaða í ljósi stöðunnar á kórónuveirufaraldrinum. Hann er þó ekki viss um að vilji sé til staðar fyrir slíkar aðgerðir.
Þórólfur segir einnig erfitt að segja til um það hvort komandi kosningar muni setja strik í reikninginn, er varðar aðgerðir vegna faraldursins.
Fyrsti upplýsingafundur Almannavarna í 49 daga var haldinn í dag klukkan 11. Þórólfur og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn Almannavarna stýrðu fundinum og svöruðu spurningum.
Eins og fram hefur komið verður ekki gripið til aðgerða strax, en ítrekuðu bæði Víðir og Þórólfur að staðan væri viðkvæm og tilefni væri til þess að hafa áhyggjur af stöðunni.
Þórólfur ræddi við blaðamann mbl.is eftir fundinn.
Ljóst er að ákveðið mynstur hefur verið í smitdreifingu frá upphafi faraldursins, og hefur í raun legið fyrir í nokkurn tíma að ákveðin hitasvæði í smitdreifingu eru til staðar. Þá helst landamærin og svo skemmtanalífið niðri í bæ. Lesa mátti á því sem Þórólfur sagði á fundinum í dag, að helst megi búast við því að gripið verði til aðgerða fyrst á landamærunum, komi til þess að aðgerðir verði nauðsynlegar.
En hvað með djammið?
„Smitin verða náttúrulega þar sem fólk er ekki að passa sig, og það er mikið á þessum stöðum í bænum og svona tengt skemmtanalífinu. Svo fer fólk heim og dreifir þessu í fjölskyldu, vinahópa og jafnvel vinnustaðinn. Svona hefur dreifingin á smitum verið,“ segir Þórólfur.
Spurður hvernig sé hægt að stemma stigu við smiti á djamminu segir Þórólfur: „Að takmarka opnunartímann hefur gengið mjög vel hingað til. Það hefur gefist vel og í raun alveg rökrétt að gera það. Hvort að það sé einhver vilji til þess að gera það, það er allt annað mál.“ Hann segir óljóst hvort ástæða verði til þess að grípa til aðgerða á skemmtanalífinu þegar líður á, en bendir aftur á að það sé hans mat að ekki sé tilefni að svo stöddu til þess að fara í harðari aðgerðir.
Frá upphafi faraldursins má segja að pólitíkin hafi verið lögð til hliðar og sérfræðingarnir fengið að stýra skútunni að langmestu leyti. Til dæmis hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að mestu fylgt þeim tillögum sem sóttvarnalæknir hefur lagt til frá upphafi. Þó hafa einstaka liðir minnisblaða Þórólfs breyst í höndum ríkisstjórnarinnar en að mestu leyti hafa stjórnmálin fylgt ráðleggingum sérfræðinga.
Þórólfur segir erfitt að segja til um það hvort að komandi kosningar og kosningabaráttan, sem senn fer á fullt flug, muni koma til með að hafa áhrif á það hvort ráðherra samþykkir íþyngjandi aðgerðir. Hann segir einnig erfitt að segja til um hvort að almenn umræða og viðleitni til þess að fylgja settum tilmælum muni breytast.
„Það mun þó ekki breyta neinu fyrir mig. Mínar tillögur byggja á sóttvörnum, mati á faraldrinum og hvaða leiðir séu bestar til þess að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum vegna sjúkdómsins,“ segir Þórólfur.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvernig bólusetningu verður háttað hjá börnum á aldrinum tólf til fimmtán ára. Spurður hvort grunnskólarnir þurfi að undirbúa sig fyrir möguleikann á skertri starfsemi næsta vetur, segir hann: „Það fer bara eftir því hvernig faraldurinn verður. Hvort að það muni koma upp mörg smit hjá börnum, hvort nýju afbrigðin komast inn í þann hóp. Það hefur ekki verið þannig, en það er mjög erfitt að spá fyrir um þetta.“
Hann bendir einnig á að hingað til hafi veiran síður smitað börn og sjaldnar valdið alvarlegum einkennum. Þess vegna hafi yfirvöld síður gripið til alvarlegra aðgerða í skólunum. „Ég á síður von á þessu, en þetta kemur í ljós.“
Nokkuð hefur borið á því að einstaklingum, sem smituðust fyrr í faraldrinum og hafa glímt við langvarandi einkenni í kjölfar veikinda, batni til muna eftir bólusetningu. Hjá sumum hverfi öll langvarandi einkenni.
Þórólfur segir „áhugavert“ að heyra af þessum sögum, og segist sjálfur þekkja dæmi þess efnis.
„Ég hef samt ekki séð neinn ábyrgan aðila taka þetta saman og leggja mat á þetta, en þetta er mjög áhugavert ef rétt reynist.“