Órói í eldgosinu í Geldingadölum hefur nú legið niðri síðan um sexleytið á fimmtudagsmorgun.
Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að ómögulegt sé að segja til um hvort og þá hvenær óróinn eigi eftir að taka sig upp aftur.
„Hann datt niður í gærmorgun og hefur verið niðri síðan. Við höfum ekki séð neitt í gígnum, eins og er lítur þetta kannski út eins og þetta var í síðustu viku þegar það lá allt niðri fá mánudegi til föstudags,“ segir Bjarki.
Gosóróinn tók sig aftur upp á föstudag eftir lengsta óróahléið frá því gosið hófst og hefur virknin verið talsverð í vikunni.
„Ég veit ekkert hvort hann eigi eftir að liggja niðri jafn lengi, halda sér niðri eða rjúka upp aftur í dag eða á morgun. Við þurfum bara að sjá hvað gerist,“ segir Bjarki.
„Það getur auðvitað verið eins og var í síðustu viku að það sé eitthvað að flæða í lokuðum rásum. En það gerir það eitthvað að verkum að þrýstingurinn sé ekki nógu mikill til að eitthvað fari upp um gíginn. Það er lítil virkni eins og er,“ segir Bjarki.