Talið er líklegt að Grímsvötn hlaupi á þessu ári. Litlar líkur eru taldar vera á mjög stóru hlaupi nema í upphafi öflugs eldgoss sem yrði á vatnasviði Grímsvatna en utan öskjunnar. Í því tilviki gæti flóðtoppur orðið stór ef vatnið sem fer af stað verður heitt vegna eldgoss. Síðast hljóp úr Grímsvötnum í júní 2018.
Þetta kemur fram í greinargerð Finns Pálssonar verkfræðings og Eyjólfs Magnússonar, vísindamanns hjá Jarðvísindastofnun HÍ (JH). Þeir fengu styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til að rannsaka Grímsvatnahlaup. Aðstæður í Grímsvötnum voru kannaðar í fyrra og vatnshæð, flatarmál og rúmmál Grímsvatna mæld. Vegagerðin gaf skýrsluna út í júní 2021 og er hún aðgengileg á vef stofnunarinnar.
Mikið vatn er nú að safnast í Grímsvötn. Í ársbyrjun 2020 voru þar 0,4 km3 vatns. Nú í júní 2021 voru þar 0,67-0,72 km3. Ef ekki hleypur úr vötnunum bætast við 0,1-0,2 km3 fram á haustið.
„Þröskuldur í Grímsvatnaskarði hefur þykknað um ~10 m síðan í síðasta jökulhlaupi haustið 2018 og skýrir líklega af hverju nú hefur safnast meira vatn í Grímsvötn en verið hefur síðan 2004. Líklegt er að vatn hlaupi úr Grímsvötnum á árinu og að flóðtoppur verði nokkru hærri en í hlaupinu 2010 (~3000 m3s-1) og geti orðið 4000-5000 m3s-1. Í ljósi þessa er haft vakandi auga með vatnshæðinni á mælistöðvum bæði JH og Veðurstofu á íshellu Grímsvatna og óróa á skjálftamæli Veðurstofunnar á Grímsfjalli,“ segir í skýrslunni.
Þá segja þeir að vatnshæð í Grímsvötnum sé nú hærri en fyrir gosið í maí 2004. Þá er talið að skyndilegur þrýstiléttir vegna jökulhlaups hafi breytt spennusviði efst í skorpunni þannig að gos hófst. „Þrýstiléttirinn virkaði eins og gikkur á eldstöðina sem var „tilbúin“ til að gjósa, hvað varðar kvikusöfnun og þrýsting í kvikuhólfi“.
„Það er aðallega tvennt sem við getum notað til að meta hvort Grímsvötn eru tilbúin í gos. Það er annars vegar landris og tilfærsla á mælistöðinni á Grímsfjalli. Hún er komin í hærri stöðu en var fyrir síðasta gos en landrisið og tilfærslan hefur ekki verið sérlega mikil síðasta árið.
Hitt sem er jafnvel mikilvægara er að samkvæmt reynslunni vex jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum fyrir gos. Síðasta árið hefur ekki verið tiltakanlega mikil skjálftavirkni þar. Hún hefur ekki aukist eins og fyrir gosin 1998, 2004, og 2011,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ.
Hann sagði það því alls óvíst að eldstöðin sé tilbúin til að gjósa. Það geti komið hlaup úr Grímsvötnum, án eldgoss, og mögulega geti hlaup úr vötnunum nægt til að hleypa af stað eldgosi.
„Það vantar aukninguna í skjálftavirkninni og landrisið hefur ekki verið eins greinilegt og fyrir undanfarin gos þannig að það er mjög óvíst hvernig þetta verður,“ sagði Magnús Tumi. Hann sagði að óvissan um hvort vænta mætti goss væri mikil. „Sérstaklega hefur jarðskjálftavirknin ekki verið tiltakanlega mikil síðasta árið. Það vantar skýra forboða og jafn skýrir forboðar og komu fyrir síðustu gos hafa ekki komið fram.“
Stöðuvatn er í öskju Grímsvatna undir jöklinum. Það endurnýjast stöðugt vegna jarðhitans og eldgosa. Bræðsluvatn safnast þar fyrir þar til það sprettur fram í jökulhlaupum sem kennd eru við Grímsvötn eða Skeiðará. Stærstu Grímsvatnahlaup eru miklar hamfarir.