Hraun rennur taktfast niður í Meradali

Vefmyndavél mbl.is var færð á nýjan stað í gær. Lukkulega …
Vefmyndavél mbl.is var færð á nýjan stað í gær. Lukkulega mætti segja, enda sjónarspilið á nýrri staðsetningu magnað. mbl.is

Eftir eins og hálfsdags frí tók eldgosið í Geldingadölum heldur betur við sér í dag. Gosóróinn jókst og tók almennilega við sér upp úr klukkan tíu í morgun. Það var svo seinni partinn í dag að sjá mátti á vefmyndavél mbl.is að hraunið tók að renna á ný úr gígnum.

Um var að ræða mikið sjónarspil en hraunið spýttist á ný í allar áttir og rann síðan inn í Meradali.

Hraunflæðismælingar fara almennt fram með þeim hætti að flogið er yfir svæðið og mælt úr lofti. Vegna töluverðrar þoku undanfarna daga hefur lítið verið hægt að mæla. Flugvél á vegum Veðurstofunnar flaug nokkrum sinnum yfir svæðið í dag og mátti sjá að gígurinn var að fyllast.

Í samtali við mbl.is segir náttúruvársérfræðingur á vakt Veðurstofunnar að ætla megi að hraunflæðið sé um tíu rúmmetrar á sekúndu. Erfitt er að spá fyrir um framhaldið, líkt og verið hefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert