Nýtt greiningartæki sýkla- og veirufræðideildar Landspítala mun auka greiningargetu deildarinnar talsvert og verður mögulegt að greina þar fjögur til fimm þúsund sýni á sólarhring strax í næstu viku ef tekst að taka tækið í gagnið þá eins og vonir standa til.
Vegna sumarfría er greiningargeta sýkla- og veirufræðideildar minni en vant er en hún stendur nú í tvö til þrjú þúsund sýnum á dag og nægir það eins og leikar standa.
„Greiningargetan eykst talsvert, að vísu takmarkast þetta dálítið yfir hásumarið af því starfsfólki sem við erum með næstu tvær vikurnar. Ef tækið fer í gang ætti afkastagetan að verða um fjögur til fimm þúsund próf á dag. Það ætti að vera nóg,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar.
Tækið mun ekki einungis nýtast í greiningu kórónuveirusýna því einnig er hægt að nota það við greiningu HPV-sýna, sem tekin eru í leghálsskimun. Þá er hægt að nota tækið til þess að greina sýni sem áður þurfti að senda til útlanda og nýtist tækið til dæmis við greiningu veira sem tengjast lifrabólgu og HIV.
Tækið er eins og það sem kom til landsins á síðasta ári og er af tegundinni Cobas 8800. Slíkt tæki getur greint um 4.000 sýni á dag á mestu afköstum en eins og fyrr segir er greiningargeta sýkla- og veirufræðideildar takmörkuð sem stendur vegna sumarfría.
„Þetta eykur öryggið, ef annað tækið bilar er hægt að nota hitt. Það er ólíklegt að bæði tæki bili samtímis svo við getum þá tryggt enn betri þjónustu,“ segir Karl.