„Vantar sárlega skilvirkt eftirlit“

Mikil aðsókn er í íbúðarhúsnæði og takmarkað framboð.
Mikil aðsókn er í íbúðarhúsnæði og takmarkað framboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér er til efs að hlutfallslega hafi orðið einhver áberandi aukning í göllum á nýbyggingum. Akkúrat núna er að koma inn á markaðinn meira af nýjum fasteignum heldur en áður. Þar af leiðandi er hið hefðbundna hlutfall af göllum stærra,“ segir Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur og formaður Matsmannafélags Íslands.

Mikil aðsókn er í íbúðarhúsnæði og takmarkað framboð einkennir fasteignamarkaðinn nú. Ragnar segir því hafa orðið ákveðna sprengingu í byggingu á nýjum húsum undanfarið og sárlega vanti eftirlit með þeim framkvæmdum. Borið hefur á umræðu um algengi galla í nýjum húsum og segir Ragnar menn taka eftir aukningu þar á, þar sem að fyrir sex eða sjö árum var mun minna um nýjar byggingar. „Ef maður hins vegar skoðar fjölda gallamála hjá dómstólunum þá er í sjálfu sér engin áberandi aukning þar á.“

Ragnar segist hafa fylgst með stöðu mála eftir hrun þegar mikil umræða var um sölu ókláraðra eigna sem hafi verið í vafasömu ástandi. „Ég rannsakaði þetta þá nokkuð ítarlega og þá var heldur ekki að sjá neina hlutfallslega aukningu, heldur var fjöldinn meiri.“

Ragnar segir allan gang vera á hvaða galla matsmenn séu að sjá. „Rannsókn sem Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gerði á sínum tíma sýnir að það er landlægur sami vandinn varðandi þakgerð. Þá eru gallarnir gjarnan tengdir nýjum byggingarefnum og byggingaraðferðum. Það er hægt að telja upp óteljandi ástæður sem valda göllum,“ segir Ragnar og nefnir að í grunninn liggi vandinn að hluta til hjá skipulagsvaldinu.

„Þar eru sett mjög ströng skilyrði um gerð og eiginleika húsnæðis í deiliskipulagi og skipulagsskilmálum. Það gerir það að verkum að langflestir byggja hús sem eru með flötum þökum sem hafa ekki reynst neitt sérstaklega vel á Íslandi,“ segir Ragnar og bætir við að þeir sem byggi leitist við að byggja sem mest af magni á hverri byggingalóð.

„Það verður oft til þess að verið er að notast við byggingaraðferðir sem ekki falla vel að íslensku veðurfari og aðstæðum.“

Bjóða út rannsóknir

„Það vantar sárlega skilvirkt eftirlit sem fylgist með því sem er að gerast vegna þess að stærsti hlutinn af gallamálum er hulinn og kemur í raun og veru ekki í ljós þar sem þau eru leyst áður en farið er fyrir dómstóla. Við sjáum því bara rétt toppinn á ísjakanum,“ segir Ragnar og nefnir að þau mál sem fari fyrir dómstóla varði stundum mörg hundruð milljóna króna tjón. „Það mætti svo sannarlega og mjög auðveldlega koma í veg fyrir stærstan hluta af gallamálum með skilvirku eftirliti.“

Áður fyrr annaðist Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins þetta eftirlit að ákveðnu leyti en hún heyrði undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem var lögð niður um áramótin. Rannsóknir á byggingarmálum eiga sér því ekki lengur lögbundinn bakhjarl, að sögn Ragnars.

„Það er í bígerð að setja upp nýtt form af byggingarannsóknum þar sem rannsóknir verða boðnar út og einkaaðilar munu þá sjá um að sækja um styrki til rannsókna. Maður á eftir að sjá hvernig það virkar. Ef fjármagnið er nægt þá ættum við ekki að vera í neinum vanda en ef ekki er nægt fjármagn til skiptanna þá sitjum við kannski uppi með það að mikilvægar rannsóknir verði ekki framkvæmdar, á til dæmis alvarlegum meinsemdum í byggingum svo sem myglu og raka sem virðist vera sækja á í bæði eldra og yngra húsnæði,“ segir Ragnar að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert