Flug Wizz Air fellt niður – lögregla kölluð til

Farþegum var ekki útveguð gisting á hóteli eða nýtt flug …
Farþegum var ekki útveguð gisting á hóteli eða nýtt flug og eru nú strandaglópar í Mílanó. AFP

Flug Wizz air sem taka átti á loft klukkan 16.10 á ítölskum tíma, frá Mílanó til Keflavíkur var skyndilega fellt niður með litlum fyrirvara. 

Íslensk kona sem fljúga átti heim í vélinni segir í samtali við mbl.is að útskýringarnar sem farþegar höfðu fengið væru að hluti flugáhafnarinnar hafi ekki mætt í flugið. 

Við það hafi mikil ringulreið myndast á flugvellinum í Mílanó og mikil reiði hafi brotist út, fólk hafi grátið og lögreglan kölluð til. 

„Við fáum ekki hótelgistingu eða nýtt flug eða neitt svoleiðis án þess að bóka það bara sjálf,“ segir konan sem var í skemmtiferð á Ítalíu. 

Að sögn annarrar íslenskrar konu, sem átti að fara í flugið, hafi reiðin ekki síst snúið að því að nokkrum fjölda farþega sem fljúga átti frá Róm til Keflavíkur hafði á síðustu stundu verið vísað til Mílanó. Afboðun flugsins hafi borist með sms-sendingu aðeins korteri fyrir áætlaðan brottfarartíma. 

Einhverjir hafi gripið til þess að bóka samstundis mikið dýrara flug með Icelandair en ekki hafi allir náð sætum í því flugi. Flugi Icelandair var síðan frestað um nokkrar klukkustundir. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert