„Óróinn datt aftur niður skömmu fyrir klukkan fimm seinni partinn í dag og hefur haldist frekar lágur í dag,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, um gosóróann undir Fagradalsfjalli og eldgosið á Reykjanesskaga.
Hann segir sérfræðinga Veðurstofunnar ekki verða vara við flæði eins og staðan er núna en vont skyggni er á gosstöðvunum sem stendur svo erfitt sé að segja til um nákvæmlega hvað sé í gangi.
Aðspurður hvað þessar miklu sveiflur í gosóróanum geti sagt okkur segir Einar Bessi að talið sé að það tengist aðstæðum efst í gosrásinni, efstu hundrað metrunum.
„Gæti verið smá stífla sem hraunið þarf að vinna sig í gegnum eða álíka. Það er erfitt að segja til um það,“ segir Einar Bessi.