Hviðuhegðun í gosinu að nýju

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Einar Falur

Hviðuhegðun er nú aftur í eldgosinu í Geldingadölum. Óróinn í gosinu hafði legið niðri í einn og hálfan sólarhring þegar hann tók aftur við sér í gær. 

Hraun rann taktfast úr gígnum og niður í Merardali í gær. Í gærkvöldi breyttist hegðun gossins og nú eru í því óróapúlsar, sambærilegir þeim sem voru í síðustu viku. 

„Um klukkan ellefu í gærkvöldi hófst aftur svona hviðuhegðun, óróapúlsar. Þeir eru búnir að standa nokkuð þétt síðan þá. Það sést vel á myndavél frá ykkur að taumar renna niður í Merardali, það er ljóst að hraunið virðist frekar vera að safnast þangað en í Nátthaga. Það er áframhaldandi gangur í gosinu,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Þetta eru stuttir púlsar, nokkrar mínútur, og þeir koma eins og taktmælir liggur við. Það væri næstum því hægt að stilla klukkuna sína eftir þessu. Þeir lýstu sér áður í stórum strókum sem komu upp, kannski 200 metra háir, en núna lýsa þeir sér frekar í því að það velli upp úr gígnum, sé smá hlé á milli og komi svo aftur. Þetta lýsir sér öðruvísi sjónrænt núna,“ segir Salóme. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert