Hefur sýnt sig síðustu vikur að þörf sé á göngunni

Eva segir um mikla samstöðu sé að ræða í göngunni.
Eva segir um mikla samstöðu sé að ræða í göngunni. Árni Sæberg

„Það hefur sýnt sig síðustu vikur að það er algjörlega þörf á þessu, þannig það hefur drifið okkur áfram og við vonumst til þess að fólk hafi orku til að mæta þrátt fyrir erfitt málefni,“ segir Eva Sigurðardóttir, einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar, samstöðugöngu með þolendum kynferðisofbeldis.

Druslugangan verður gengin í tíunda skiptið þann 24. Júlí 2021. Gengið verður af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll þar sem ræður og tónlistaratriði taka við.

Druslugangan 2017.
Druslugangan 2017. Árni Sæberg

„Fólk er orðið þreytt á þessu öllu saman“

„Þetta er náttúrulega alltaf triggerandi og þegar þetta er svona sí endalaust að þá verður þetta bara trigger ofan á trigger en ég held að þetta sýnir samt bara fram á þörfina á að halda uppi þessari umræðu og að halda slagnum áfram,“ segir Eva.

„Maður er að vona að af því að þetta er ekki bara slagur og erfitt að mæta heldur er þetta svo mikil samstaða og þetta sýnir að það er hópur af fólki sem að stendur með þér sama hvað, það er það fallega sem gerist í göngunni og þess vegna talar fólk um hvað það sé gott að mæta.“

Eva segist finna fyrir því að fólki finnist gott að mæta í gönguna til þess að sýna og fá stuðning. „Mér finnst fólk þurfa á því að halda núna, mér finnst vera þannig andi, fólk er orðið rosa þreytt á þessu öllu saman.“

Hún segist búast við góðri mætingu í gönguna en bætir þó við að það sé aldrei hægt að sjá fyrir hvernig mætingin verður, „það skiptir ekki máli hversu margir mæta, það er alltaf þessi orka.“

Druslugangan 2015
Druslugangan 2015 Þórður Arnar Þórðarson

Hvað er Druslugangan?

„Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis og vopn okkar gegn þöggun, skömm og ofbeldi. Við sáum það í annarri bylgju #metoo í vor að gangan er mikilvæg sem aldrei fyrr og þurfum við að halda áfram að berjast gegn því kerfislæga og samfélagslega meini sem ofbeldi er,“ segir í tilkynningu frá Druslugöngunni.

„Misbeiting valds er alvarlegur fylgikvilli þeirrar samfélagslegu hírarkíu sem finna má í íslensku samfélagi og eru jaðarsettir einstaklingar sérstaklega útsettir fyrir þess konar ofbeldi. Þar geta hinir ýmsu áhættuþættir haft áhrif. Við getum öll orðið fyrir ofbeldi og við getum öll beitt ofbeldi, en valdamisræmi í samfélaginu getur undirstrikað hættuna á að fólk beiti eða sé beitt ofbeldi.“

„Við hvetjum ykkur öll til að taka afstöðu, skila skömminni, sýna samstöðu með þolendum ofbeldis og ganga Druslugönguna með okkur.“

Druslugangan 2019.
Druslugangan 2019. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert