Löng hefð fyrir fornfrægu balli

Löng hefð er fyrir þessu fornfræga balli.
Löng hefð er fyrir þessu fornfræga balli. Ljósmynd/Facebook síða Ögurballsins

Hið árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp í kvöld. Thelma Rut Hafliðadóttir, einn skipuleggjandi ballsins, segir langa hefð fyrir þessu fornfræga balli.

„Ballið hefur verið haldið síðan 1926, þá gerðu Djúpmenn sér ferð í Ögur til að sletta úr klaufunum, oftast sjóleiðina og dönsuðu fram á morgun.“

„Ballgestir fengu svo rabarbaragraut með rjóma áður en þeir fengu ferðaleyfi heim. Við höldum í hefðina, og grautinn geri ég með uppskrift ömmu minnar Maju í Ögri og rjóminn kemur frá bændunum á Erpsstöðum í Dölum. Ögurballið er einn vinsælasti viðburður sumarsins á Vestfjörðum, verður vonandi svo um ókomin ár og er alltaf jafn gaman að taka þátt í,“ segir Thelma.

Fer stækkandi með ári hverju

“Þetta fer í rauninni stækkandi hjá okkur með ári hverju og er farið að líkjast útihátíð. Við erum í eldgömlu samkomuhúsi sem var upphaflega byggt sem ungmennahús 1926 og tekur í rauninni einungis 70 manns. Við slógum hins vegar met í hitt í fyrra þegar það komu rúmlega 500 manns en það myndast alltaf mikil stemming fyrir utan ballið.”

Thelma segir skipuleggjendur ballsins vera fjölskyldu, vini og vandamenn sem hjálpast að og að allur ágóði renni beint til samkomuhússins í rekstur, uppbygingu, viðhaldi og þess háttar.

„Við reynum alltaf að koma sem flest í fjölskyldunni til þess að gera og græja, þar sem þetta er heljarinnar púsluspil oft.“

Thelma segir að ballið sé farið að líkjast útihátíð.
Thelma segir að ballið sé farið að líkjast útihátíð. Ljósmynd/ Facebook síða Ögurballsins

Búast við um 500-600 manns

„Það eru mjög mismunandi giskanir í gangi um hve mörgum gestum við megum búast við, ég ætla að giska á 500-600 manns en sumir eru að giska á alveg hátt í 1000 gesti,“ segir Thelma.

Í dag er söguganga um svæðið sem endar með messu í Ögurkirkju. Krakkaball verður haldið seinnipartinn í samkomuhúsinu og svo er sjálft Ögurballið um kvöldið.

Stuðbandið Halli og Þórunn spila fyrir dansi eins og þau hafa gert síðustu 22 ár. Næg tjaldstæði eru á svæðinu og vakin athygli á 18 ára aldurstakmarki inn á svæðið.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um viðburðinn á Facebook síðu Ögurballsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert