Fyrr í vikunni ræddi Morgunblaðið við Helga Gunnlaugsson, afbrotafræðing og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, um ásakanir um kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum. Helgi taldi víst að þolendur kynferðisbrota upplifðu réttarkerfið vanmáttugt til að taka á reynslu þeirra og veigruðu sér því við því að leita réttar síns. Því vanti nýjan vettvang fyrir þolendur til að leita réttar síns, ákveðið millistig á milli réttarkerfisins og samfélagslegrar umræðu.
„Ég tel að þetta millistig gæti verið skipað af fagaðilum af ýmsu tagi, svo sem félagsráðgjöfum, sálfræðingum eða öðrum úr félagsvísindum sem sérhæfa sig í samskiptum af ýmsu tagi. Þessir aðilar myndu sinna ákveðinni sáttamiðlun þar sem aðilar fengju tækifæri til að hittast og gera grein fyrir hlið sinni,“ segir Helgi og nefnir að þetta úrræði ætti heima utan hins eiginlega réttarkerfis sem hafi þröngt nálarauga fyrir reynslu þolenda.
„Þetta væri fyrst og fremst hugsað fyrir vægari brot, ámælisverða hegðan og áreitni en alvarleg, klárlega refsiverð háttsemi yrði áfram í réttarvörslukerfinu. Oft nægir að gerendur viðurkenni ábyrgð sína eða greiði í einhverjum tilfellum miskabætur til þolanda,“ segir Helgi og bætir við að þessi sáttamiðlun yrði að sjálfsögðu að vera háð samþykki þolenda og gerenda.
„Úrræðið er ekki ólíkt sáttamiðlun sem til er í löggjöf hér á landi en lítið notað. Ég legg þó til að úrræðið verði utan réttarkerfisins til að það verði vænlegri kostur fyrir báða aðila.“