Sótt um leyfi til að byggja flugskýli fyrir Gæsluna

Flugskýlið rúmar ekki allan flugflota Landhelgisgæslunnar og aðstaða er bágborin.. …
Flugskýlið rúmar ekki allan flugflota Landhelgisgæslunnar og aðstaða er bágborin.. Nýja skýlið á að rísa suðaustan við það gamla. mbl.is/Árni Sæberg

Félagið Öryggisfjarskipti ehf., sem er félag í eigu ríkisins, hefur sótt um leyfi til að byggja nýtt flugskýli á Reykjavíkurflugvelli fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar. Umsóknin var tekin til afgreiðslu á síðasta fundi byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar og var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum borgarinnar, en Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs, hefur sagt að rétt sé að beina framtíðaruppbyggingu Gæslunnar annað og nefnt Hvassahraun á Reykjanesi sem líklegasta staðinn fyrir nýjan flugvöll.

Fram kemur í gögnum málsins að sótt sé um leyfi til að byggja flugskýli fyrir tvær þyrlur og gera tengibygginu á tveimur hæðum, sem tengist núverandi flugskýli og á að hýsa skrifstofur, mötuneyti starfsmanna, búningsklefa og hvíldarrými fyrir stafsfólk, á lóð nr. 68B við Nauthólsveg. Stærð flugskýlis og tengibyggingar verður 2.881,6 fermetrar.

Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands(LHG) hefur frá upphafi starfsemi sinnar haft aðstöðu til geymslu og viðhalds á flugvélum og þyrlum í flugskýli nr. 2 á Reykjavíkurflugvelli. Flugskýlið er 2.355 fermetrar að stærð og að stofni til frá árinu 1943.

Þörf á að bæta aðstöðuna

Fram kemur í byggingarleyfisumsókninni að frá því LHG tók við flugskýlinu hafi verið leitast við að bæta aðstöðu til viðhalds og fyrir starfsmenn með viðbyggingum innan og utan skýlisins. Dugði það þokkalega fram yfir aldamótin, eða allt þar til þyrlusveitin var efld og björgunarþyrlum fjölgað. Síðasta áratug hafi blasað við að bæta þyrfti verulega aðstöðu til að sinna viðhaldi á þyrlunum og geymslu þeirra svo þær séu jafnan tiltækar og flughæfar þegar útkall berst. Þá sé aðstaða starfsmanna með öllu óviðunandi.

Og eins og fram kom nýlega í fréttum, rúmar núverandi flugskýli ekki allan flugflota Landhelgisgæslunnar, þ.e. flugvél og þrjár björgunarþyrlur.

Leitað var eftir breytingum á deiliskipulagi á athafnasvæði LHG svo heimilt yrði að byggja frekar yfir starfsemina með viðbyggingu við flugskýli 2. Þessi heimild fékkst með breytingu á deiliskipulagi, sem gildi tók með auglýsingu í Stjórnartíðindum í júní 2014.

„Í tilvitnaðri breytingu á deiliskipulaginu er með skýrum hætti kveðið á um heimild til að byggja nýtt flugskýli með innbyggðum skrifstofum og tengibyggingu við það eldra, allt að 1.750 fermetrum suð-austan við flugskýli 2. Heimildin er skilyrt á þann veg, að viðbyggingar við gamla flugskýlið verði rifnar,“ segir í umsókninni.

Þá segir jafnframt að nýbyggingar séu til bráðabirgða og skuli fjarlægðar í síðasta lagi árið 2022, á kostnað eigenda, eins og tiltekið sé í Aðalskipulagi. Nú hefur starfsemi Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli verið framlengd a.m.k. til ásins 2032.

Frá því deiliskipulaginu var breytt hefur LHG unnið að undirbúningi að umræddri viðbyggingu og m.a. notið aðstoðar Framkvæmdasýslu ríkisins og Eflu verkfræðistofu við þarfagreiningu að umræddri viðbyggingu. Bjarni Snæbjörnsson arkitekt er aðalhönnuður að viðbyggingunni. Sú ákvörðun að leigja þrjár björgunarþyrlur af gerðinni Airbus H225 geri það að verkum að óhjákvæmilegt sé að auka verulega aðstöðu viðhaldsdeildar. Þær séu mun öflugri og stærri en fyrri þyrlur.

Öryggisfjarskipti fjármagna

Hinn 16. júní sl. var gengið frá samkomulagi milli Landhelgisgæslunnar og félagsins Öryggisfjarskipti ehf., sem er í eigu ríkisins og fjármagnað hefur búnað og séð um uppbyggingu á húsnæði og mannvirkjum Neyðarlínunnar um land allt.

Í samkomulaginu er kveðið á um að Öryggisfjarskipti ehf. fjármagni og byggi flugskýli í þágu LHG.

Enn fremur að byggingin verði þannig úr garði gerð að hana megi taka niður og flytja þegar flugstarfsemi leggist af á Reykjavíkurflugvelli og starfsemi flugdeildar LHG fái aðstöðu annars staðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert