Framkvæmdastjóri Sky Lagoon telur fyrirtækið ekki hafa mismunað eftir kyni þegar ungri íslenskri konu var vísað upp úr lóninu nýlega fyrir að vera ber að ofan. Starfsfólk hafi aðeins verið að fylgja skilmálum fyrirtækisins.
„Í okkar skilmálum er fólk beðið um að vera í sundfötum, þessum hefðbundnu sundfötum. Við setjum þá kröfu alveg eins og aðrir baðstaðir,“ segir Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon í samtali við mbl.is.
Innt eftir viðbrögðum við Facebook-færslu umræddrar konu um atvikið segir Dagný allt hafa farið eðlilega fram. Hún var þó að eigin sögn ekki á svæðinu þegar þetta gerðist.
„Hún var beðin um að fara í topp en annars þyrfti hún að fara upp úr. Við erum með sundföt sem við getum lánað fólki svo það er ekkert mál en hún vildi það ekki. Henni var samt ekki fylgt upp úr. Ég held þetta sé mjög dramatískt orðað hjá henni. Vaktstjórinn ræddi málin bara rólega við hana. Þetta fór allt eðlilega fram.“
Þá segir hún fyrirtækið hafa reynt að fara hinn „gullna meðalveg“ í þessu máli.
„Þetta er rosalega erfið staða sem við erum í. Viðskiptavinir okkar koma frá allskonar menningarheimum og í þessu sem og öðru verðum við að velja hinn gullna meðalveg,“ segir Dagný.
Er það hinn gullni meðalvegur að vísa konum upp úr lóninu fyrir það að vera berbrjósta?
„Ef ekki það hvað þá? Þetta er bara hefð. Sundfatastíllinn hér á landi er bara hefðbundinnn og við tókum þá ákvörðun að fylgja því eftir. Hvort sem því verður breytt í framtíðinni eða ekki þá ákváðum við að gera það núna,“ segir hún. „Þetta er bara eins og á öðrum sundstöðum nema kannski í sundlaugunum en það er samfélagsrekin afþreying.“
Er kannski ekki gert nógu skýrt grein fyrir þessari kröfu í skilmálunum?
„Við erum bara í þeim bransa þar sem við viljum að allir fari ánægðir frá okkur en stundum er það bara ekki hægt. Ég er búin að tala við vaktstjórann sem lét mig strax vita af þessu. Okkur finnst þetta rosalega leiðinlegt því þessi kona var mjög ósátt.
Við erum í erfiðri stöðu í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Þá verður maður stundum að velja þennan gullna meðalveg sem er kannski hefðin og svo hefur fólk bara sína skoðun á því hvort það sé rétt eða röng ákvörðun.“
Spurð hvort skilmálarnir stangist ekki á við femínískar hugmyndir nútímans svarar Dagný því að fyrirtækinu sé nú stýrt af konum.
Innt eftir því segir Dagný stjórnendur fyrirtækisins hafa kynnt sér lög um kynrænt sjálfræði sem eiga m.a. að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Hún telur fyrirtækið þó ekki hafa brotið í bága við þau lög í þessu tilviki.
„Að sjálfsögðu höfum við kynnt okkur þau lög en við teljum okkur ekki fara á mis við þau með þessu. Ef við erum að gera það þurfum við bara að fá lögfræðilegt álit á því og gerum það kannski bara í framhaldinu,“ segir hún.
Konan sem umræðir fékk aðgangsgjaldið í lónið endurgreitt að sögn Dagnýjar.
„Hún bað strax um það að fá endurgreitt sem við bara gerðum. Ef fólk er ósátt þá gerum við það að sjálfsögðu hver svosem ástæðan er. Við viljum bara senda frá okkur ánægða gesti.“