Frá milljónaborg en vill helst vera í Vík

Sorasak Jiamahasub, sem er alltaf kallaður Meng, að störfum á …
Sorasak Jiamahasub, sem er alltaf kallaður Meng, að störfum á Suður-Vík. Hann fékk vinnu þar nokkrum mánuðum eftir að hann kom þangað sem gestur.

Sorasak Jiamahasub, sem er alltaf kallaður Meng, er frá milljónaborg en fluttist í hundraðabæ árið 2016. Hann er yfirþjónn á veitingastaðnum Suður-Vík og unir sér þar vel, enda hefur honum verið tekið sem einum af fjölskyldunni. Yfir vetrartímann þeytist hann þó til Bangkok, hvaðan hann er, til þess að flýja vetrarhörkuna á Íslandi. Í kórónuveirufaraldrinum var það þó ekki möguleiki og upplifði Meng í fyrsta sinn langan íslenskan vetur. 

Meng kom fyrst til Íslands sem gestur í febrúarmánuði 2016. Þá starfaði hann sem þjónn í Oxford á Englandi. Á áttunda degi ferðar sinnar var honum bent á að fá sér bita á Suður-Vík og var ferðin heldur betur örlagarík.

„Þar hitti ég þjón, konu sem er hálftaílensk og hálfbresk en hafði búið hér síðan hún var tveggja ára gömul. Við spjölluðum aðeins en það var mikið að gera og hún ein á vaktinni. Ég sagði henni að ef þau vantaði starfsfólk þá væri ég að leita mér að vinnu. Hún tók vel í það og sagði mér að koma aftur um sumarið,“ segir Meng og hlær. „Þar byrjar sagan. Þegar ég fór aftur til Englands sendi ég henni tölvupóst og hún sagði mér að koma í júní sama ár.“

Gjarnan sækja taílenskir ferðamenn Suður-Vík heim og undrast þeir oft …
Gjarnan sækja taílenskir ferðamenn Suður-Vík heim og undrast þeir oft að Meng vilji búa í svo litlu þorpi.

Úr 10 milljóna borg í 700 manna bæ

Síðan Meng hóf störf á Suður-Vík hefur hann almennt dvalið í Vík frá febrúarmánuði og fram í október eða nóvember.

„Ég reyndi að vera hérna að vetri til en áttaði mig þá á því að ég eiginlega gæti það ekki,“ segir hinn hláturmildi Meng. „Það er mjög vindasamt hérna á veturna og dimmt. Svo er líka minna um ferðamenn. Þegar það er ekki mikið að gera vil ég frekar fara heim. “

Meng segir að fólk sé jafnan hissa á því að hann vilji dvelja í Vík mánuðum saman, í ljósi þess að hann ólst upp í Bangkok, borg sem telur rúmar 10,7 milljónir íbúa, og er því vanur að vera á stað þar sem alltaf er mikið um að vera. Í Mýrdalshreppi, þar sem Vík er staðsett, búa rúmlega 700 manns.

„Þetta er auðvitað allt öðruvísi umhverfi. Margir spyrja mig hvers vegna ég hafi valið Vík. Jafnvel Íslendingar spyrja að því, og fólk frá Reykjavík. Ég segi fólki ég elski að vera hérna. Hér get ég lifað þeim lífsstíl sem ég vil lifa, friðsælum lífsstíl.“

Á fallegum degi í Vík í Mýrdal.
Á fallegum degi í Vík í Mýrdal. Ljósmynd/Sorasak Jiamahasub

Ég drekk íslenska vatnið stanslaust

Meng nefnir vatnið, hreina loftið og fólkið sem aðalástæðurnar fyrir því að hann vilji vera í Vík.

„Helsta ástæðan fyrir því að ég vil koma aftur til Íslands er vatnið hérna. Ég drekk íslenska vatnið stanslaust,“ segir Meng léttur í bragði.

„Ferska loftið heldur mér líka hérna. Það er engin mengun. Í Bangkok er loftið mengað vegna mikillar umferðar í borginni.“

Um Íslendinga segir Meng:

„Þeir sem ekki þekkja Íslendinga halda kannski að þeir séu óspennandi en í raun og veru eruð þið mjög góð og hafið tekið vel á móti mér.“

Systir Mengs heimsótti hann til Víkur árið 2019. Hér er …
Systir Mengs heimsótti hann til Víkur árið 2019. Hér er Meng ásamt systur sinni, fjölskyldunni hennar og fólkinu sem rekur Suður-Vík.

Vildi koma aftur eftir hjálpsemina

Þegar hann var hérna í fyrsta sinn var vetur, hann ekki vanur að keyra í snjó og lenti tvisvar sinnum í umferðaróhappi. Í bæði skiptin komu Íslendingar honum til hjálpar.

„Ég kunni ekki að keyra í snjó og lenti í vandræðum. Þá sá ég að fólkið er mjög almennilegt og það vill alltaf hjálpa. Eftir þessi tvö skipti hugsaði ég að ég yrði að koma hingað aftur.“

Fólkið sem Meng heldur þó mest upp á á Íslandi eru eigendur Suður-Víkur sem hann segir að hafi verið sér afar góðir.

„Ég held að það sé aðalástæðan fyrir því að ég kem alltaf aftur. Móðir eigandans er á aldur við mömmu mína, hún kemur fram við mig eins og ég sé sonur hennar. Mér líður mjög vel hér og ég fæ að vera einn af fjölskyldunni.“

Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á ferðaþjónustuna, eins og flestum er eflaust kunnugt. Þó að mögulegt hafi verið að halda dyrum Suður-Víkur opnum fram í ágúst neyddust eigendurnir til þess að loka staðnum yfir veturinn. Eftir því sem staðan batnaði var svo hægt að opna staðinn aftur, sérstaklega í takt við útbreiddari bólusetningar og er nú opið daglega.

Meng gerði mikið af því að fara í göngutúra í …
Meng gerði mikið af því að fara í göngutúra í Covid-19 með vinkonu sinni sem er einnig frá Taílandi og hann lítur á sem systur. Ljósmynd/Sorasak Jiamahasub

Missti vinnuna en ákvað að fara samt ekki heim

Vegna ástandsins missti Meng vinnuna í nokkra mánuði. Hann ákvað samt að fara ekki heim til Bangkok, bæði vegna þess að ástandið var betra hér á landi og vegna þess hve vel íslenska kerfið greip hann í atvinnuleysinu.

„Þó að manni finnist stundum háir skattar hérna þá hjálpa stjórnvöld manni þegar maður þarf raunverulega á því að halda. Ég var mjög ánægður með það og ákvað að halda áfram að búa á Íslandi,“ segir Meng sem vann í tíu ár á Englandi áður en hann kom til Íslands. Vinir hans þar voru í mun verri stöðu í sínu atvinnuleysi í faraldrinum.

Langaði þig ekkert heim?

„Jú, en ég hugsaði að ef þetta ætti að vera svona væri ekkert sem ég gæti gert. Ég er búddisti og þetta er grunnhugsunin hjá búddistum; Ef þú ert óánægður með eitthvað sem þú getur ekki breytt þá muntu þjást. En ef þú tekur því sem að höndum ber þá er miklu auðveldara að takast á við ástandið. Þetta vandamál var stærra en ég og ég ákvað að gangast bara við því og vera ekki dapur yfir því,“ segir Meng yfirvegaður.

„Ég hef aldrei hugsað um að hætta“

Eins og áður segir ólst hann upp í Bangkok og búa foreldrar hans þar sem og eldri bróðir og yngri systir.

„Fjölskyldan mín telur mig mjög heppinn að vera á Íslandi því þetta er eitt af öruggustu löndum í heiminum í þessum faraldri og það eru langflestir búnir að fá bólusetningu. Það er engin ástæða til þess að vera of hræddur lengur við faraldurinn. Traffíkin eykst sífellt hjá okkur á Suður-Vík og ég er ánægður með að hafa vinnu hérna og sjá allt verða eðlilegt aftur.“

Þar sem ástandið á faraldrinum í Taílandi er slæmt hefur Meng ekkert farið til heimalandsins síðan hann kom til Íslands í febrúarmánuði í fyrra. Hann segir að veturinn hafi vissulega stundum verið erfiður en sem betur fór hafi taílensk vinkona hans, sem hann lítur á sem systur og vinnur með honum á Suður-Vík, verið á landinu.

„Hún er ekki blóðsystir mín en í Asíu er það þannig að ef þú átt vin sem er aðeins eldri en þú líturðu á viðkomandi sem systkini og berð virðingu fyrir manneskjunni með þeim hætti. Við elduðum oft saman og fórum í göngutúra.“

Spurður um framtíðina segir Meng:

„Ég hef unnið hérna bráðum í sex ár og mig langar alltaf að koma aftur. Það er mikið að gera og vinnan getur verið erfið en ég hef aldrei hugsað um að hætta. Ég myndi í það minnsta ekki fara til Reykjavíkur, ef ég vildi þann lífsstíl gæti ég bara farið aftur til Englands eða Taílands,“ segir Meng og að lokum:

„Fyrir nokkrum árum síðan komu margir taílenskir ferðamenn til landsins og voru mjög hissa á því að ég vildi búa hérna því það væri svo lítið um að vera. En það sem er hér nægir mér og ég kem hingað aftur og aftur vegna þess að ég vil ekkert annað. Ég fékk nóg af stressandi lífi og vil heldur vera hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert