„Biðin eftir góðri aðstöðu hefur verið löng og því erum við himinlifandi að hafa fengið húsið til afnota,“ segir Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Siglingaklúbbsins Nökkva, en klúbburinn hefur fengið til umráða nýtt og glæsilegt aðstöðuhús við Pollinn á Akureyri. Hann segir siglingafólk himinlifandi með húsið og það muni verða algjör bylting fyrir starfsemi klúbbsins sem nú horfi fram á bjarta framtíð.
Húsið sem Nökkvi fær nú til umráða er um 400 fermetrar að gólfleti. Stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Einnig eru í húsinu fyrsta flokks búningsklefar með sturtum og þar er einnig að finna þurrkherbergi fyrir blautbúninga.
Tryggvi segir að nýja húsið muni nýtast vel og sé þá sama hvort horft sé til aðstöðu fyrir starfsfólk klúbbsins, til búningaskipta, félagsstarfs eða geymslu og viðgerða.
„Við erum að fara úr tæplega 100 fermetra húsnæði yfir í rúmlega 400 fermetra, sem fyrri áfangi þessa verks er. Þessi umskipti gera okkur kleift að geta loksins starfað á ársgrundvelli, en slíkt hefur fram til þessa ekki verið í boði,“ segir hann. Nú verði hægt að sigla frá vori og fram eftir hausti á kænum og kajak og róðrarbrettafólk geti siglt árið um kring. Viðhald færist yfir á vetrartíma þannig að þjálfarar og aðrir starfsmenn geta einbeitt sér að siglingum yfir sumarið en þurftu áður að sinna viðhaldi á vorin og fram á sumar.
Tryggvi segir að mikill áhugi sé á siglingum og sjósporti á Akureyri og viðbúið að hann aukist enn frekar á komandi árum í takt við bætta aðstöðu. Barnanámskeið félagsins hafa alltaf verið vel sótt, færri komist að en vilja fyrri hluta sumars.
Tryggvi segir að nú megi gera ráð fyrir að ýmsir hópar siglingamanna sem hafi verið dreifðir um fjörðinn setji upp bækistöð við nýja Nökkvahúsið þar sem til boða stendur alvöru aðstaða. Starfsemi félagsins mun því án efa aukast og einnig gæði starfsins.