„Hraunað yfir mig alveg hægri vinstri“

Hjón­in María Anna Clausen og Ólaf­ur Vig­fús­son.
Hjón­in María Anna Clausen og Ólaf­ur Vig­fús­son. Ljósmynd/Aðsend

Frétt birtist í Morgunblaðinu í dag sem sagði frá veiðiferð hjónanna Ólafs Vigfússonar og Maríu Önnu Clausen á Austurland nú fyrir helgi. Umfjöllunin fór fyrir brjóstið á einhverjum og sáu þeir sig knúna til þess að senda Ólafi skilaboð sem hann lýsir einfaldlega sem hatursskilaboðum.

„Ég átti nú ekki von á þessu, en það er bara búið að hrauna yfir mig alveg hægri vinstri í allan dag,“ segir Ólafur. Hann segir mörg þeirra skilaboða sem honum hafa borist hreinlega langt yfir strikið.

„Það er bara fullt af veiku fólki þarna úti, fólki sem segir alls konar hluti sem það myndi aldrei segja við mann persónulega.“ Ólafur telur samfélagsmiðlana verða til þess að fólk geti hreinlega sagt það sem það vill. „Við sjáum þetta í umræðu um nafngreinda og ónafngreinda menn, þessu alveg óskylt, bara hvernig fólk talar og tjáir sig á netinu.“

Ekki í fyrsta sinn

Hann segir þetta ekki í fyrsta sinn sem þau hjónin fá svona útreið, en María fór þá í veiðiferð fyrir nokkrum árum til Skotlands með vinkonum sínum og fengu þær í kjölfarið holskeflu hatursskilaboða. „Þetta voru nánast bara morðhótanir, sagt að það ætti að skjóta þær og þar fram eftir götunum.“

Hann telur einnig að mikillar vanþekkingar gæti í orðræðu þessa fólks. Hann segir borgarsamfélagið hafa þróast þannig að fólk sé orðið verulega vantengt náttúrunni og „geri sér ekki grein fyrir því um hvað veiði snýst.“

Veiðistjórnunin sé skynsöm

„Við erum bara að veiða okkur til matar. Það er ekki þannig að maður sé þarna hlaupandi uppi dýrin hlæjandi og skríkjandi.“ Verst sé þó að sé fólk mótfallið þessu eða sé annarrar skoðunar þá sé umræðan tekin á lágt plan. Hann segist ekki ætla að tilkynna nein ummæli til lögreglu.

Að lokum bendir hann á að veiðistjórnun á hreindýraveiðum sé afar góð. „Vísindamenn stýra þessu alfarið og svo er gefinn út kvóti. Menn eru ekki þarna spólandi á hjólum og skjótandi allt sem þeir sjá. Þessu er stýrt á skynsaman hátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert