„Þetta var augljóslega alls ekki nógu vel undirbúið og mér finnst þetta bara ofsalega mikil vanvirðing og niðurlægjandi framkoma við konur og ég held að karlakrabbameinum yrði aldrei boðið upp á svona,“ segir Hildur Lilliendahl Viggósdóttir í samtali við mbl.is.
Hildur greindi frá því á Twitter í dag að eftir margra mánaða ferli hefði ferlinu í kringum leghálsskimun hennar nú verið klúðrað í annað sinn. Hún mun því þurfa að fara í sýnatöku í þriðja sinn á hálfu ári.
Í nóvember í fyrra pantaði Hildur sér tíma hjá kvensjúkdómalækni í leghálsskimun en hún fékk ekki tíma fyrr en í lok janúar þessa árs. Fjórum mánuðum síðar fær Hildur svo bréf frá Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana þar sem fram kemur að sýnið hafi verið ófullnægjandi og það geti til dæmis gerst ef sýnið er of lítið. Í bréfinu segir einnig að mælt sé með því að tekið verði nýtt leghálssýni innan þriggja mánaða frá síðustu sýnatöku.
„En þá voru liðnir fjórir mánuðir þegar þetta bréf barst. Þannig að ég gat ekki orðið við því,“ segir Hildur. Í kjölfar bréfsins fór Hildur eins fljótt og hún gat aftur til kvensjúkdómalæknisins.
„Hún sagði að það væri þess vegna hugsanlegt að sýnið hefði bara týnst en til þess að vera alveg örugg skyldi hún taka bara eins stórt sýni og mögulegt væri og tók það sérstaklega fram að það væri algjörlega útilokað að halda því fram að þetta sýni væri ekki nægilega stórt,“ segir Hildur og bætir við:
„Hún sendi það af stað í algjöran forgang vegna minnar fyrri sögu. Ég hef tvisvar sinnum greinst með frumubreytingar og farið í keiluskurð og einu sinni voru þær svo alvarlegar að það var staðbundið krabbamein.“
Síðan líður einn og hálfur mánuður og þá berst Hildi bréf sem reyndist samhljóða fyrra bréfinu. Því miður reyndist leghálssýnið ófullnægjandi og að það geti til dæmis gerst ef sýnið er of lítið. Hildur bendir á að það geti ekki verið skýringin í þessu tilfelli en kvensjúkdómalæknir hennar hafði sérstaklega tekið fram að það væri útilokað.
Frekari upplýsingar hefur Hildur ekki fengið. „Ég átta mig á því að ég get hringt í samhæfingarmiðstöðina og fengið einhver svör en þetta er bara svo niðurlægjandi, mér finnst þetta svo mikil vanvirðing að ég er eiginlega bara búin að vera að safna kjarki í að kalla eftir einhverjum frekari svörum,“ segir Hildur.
Það eru því sex mánuðir síðan Hildur fór fyrst í sýnatöku og hún hefur enn engar niðurstöður fengið. „Þetta er alveg rosalega langur tími fyrir engin svör og mikil fyrirhöfn af minni hálfu.“
Aðspurð segist Hildur auðvitað finna fyrir ótta eftir svona langan tíma án nokkurra niðurstaðna. „Ég hef ekki hugmynd um hvað er að grassera inni í mér.“
Hildur bendir auk þess á færslu í facebookhópnum „Aðför að heilsu kvenna“.
„Þar var kona sem að reyndi að kalla eftir einhverjum svörum frá miðstöðinni og fékk þau viðbrögð að móttaka á upplýsingabeiðninni væri staðfest en vegna anna og með hliðsjón af sumarleyfum væri ekki unnt að taka hana til meðferðar fyrr en 31. ágúst,“ segir Hildur og bætir við:
„Það er eins heilbrigðiskerfið geti bara farið í sumarfrí og við bara fáum ekki upplýsingar á meðan.“