Sky Lagoon mun ekki gera greinarmun á kynjum þegar kemur að reglum um klæðaburð í lóninu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjóra Sky Lagoon.
Mikil umræða fór af stað í tengslum við þetta þegar ung íslensk kona deildi upplifun sinni af því að vera vísað upp úr Sky Lagoon fyrir það eitt að vera berbrjósta.
Dagný Hrönn Pétursdóttir framkvæmdastjóri sagði svo í samtali við mbl.is að starfsmenn lónsins hafi reynt að fara hinn „gullna meðalveg“ með því að vísa konunni úr lóninu.
Af tilkynningu framkvæmdastjórans að dæma hefur afstaða stjórnenda fyrirtækisins í þessu máli breyst en nú verður ekki gerður greinarmunum á kynjum um hvað séu fullnægjandi sundföt hjá Sky Lagoon.
Tilkynningin í heild sinni:
„Í ljósi umræðu um reglur um klæðaburð
Um liðna helgi var gestur Sky Lagoon beðin um að hylja brjóst sín í lóninu. Í kjölfarið fór af stað umræða varðandi reglur um sundfatnað.
Margir hafa tjáð sig við okkur og viðrað mismunandi skoðanir um hvað séu fullnægjandi sundföt kynjanna. Ljóst er að það eru mjög skiptar skoðanir á þessu máli.
Eftir að hafa skoðað málið betur komumst við að þeirri niðurstöðu að túlkun viðkomandi á skilmálum okkar átti rétt á sér. Við viljum því þakka henni fyrir að vekja athygli okkar á þessu. Ekki verður gerður greinarmunur á kynjum um hvað séu fullnægjandi sundföt hjá Sky Lagoon.
Frá upphafi hefur fyrirtækið lagt sig mikið fram við að taka jafn vel á móti öllum gestum. Sky Lagoon leggur áherslu á að það er það sem við viljum standa fyrir.
Hér eftir sem hingað til bjóðum við hjá Sky Lagoon öll velkomin í lónið með von um að upplifun okkar gesta verði sem best. Virðingarfyllst, Dagný Pétursdóttir framkvæmdastjóri.“