Veðurspáin fyrir vikuna er víðast hvar góð, einkum austan til á landinu.
Hitatölur hefur vantað inn á staðarspá Veðurstofu Íslands og ber spáin því þess merki að snjókomu sé að vænta við m.a. Veiðivötn síðar í vikunni. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er það þó ekki raunin heldur er um villu að ræða á kortinu.
Á sama tíma gæti hiti á láglendi víða náð um og yfir 20 stigum, einkum á Austfjörðum, Norðausturlandi og Suðausturlandi. Þannig gæti hiti náð 23 gráðum á Egilsstöðum næstkomandi fimmtudag.
Veðurspá er jafnframt góð fyrir Kirkjubæjarklaustur og nágrenni næstu daga. Fram kom í fréttum RÚV í kvöld að ásókn í tjaldstæði er slík að bændur á Hörgslandi brugðu á það ráð að hleypa gestum inn á nýslegið tún við hlið tjaldstæðisins þar. Hitinn á Klaustri í dag fór upp undir 25 gráður þegar mest lét. Mestur hiti í dag mældist hins vegar á Hallormsstað, eða 26,7 gráður, samkvæmt mælum Veðurstofunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.