Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir aðgerðirnar sem ríkisstjórnin tilkynnti í dag vera varúðarráðstöfun. Bólusettir ferðamenn verða nú krafðir um neikvætt próf við veirunni við komuna til landsins.
Bjarni segir að enn ríki töluvert mikil óvissa um það hversu mikil hætta sé á því að bólusettir einstaklingar verði fyrir alvarlegum veikindum. Það sé í ljósi þeirrar óvissu sem tillaga hafi borist til heilbrigðisráðherra um nýjar takmarkanir.
„Ég held það sé verið að stíga varfærið skref sem er í samhengi við útbreiðslu smita hér innanlands og við hljótum að fagna því að áfram sé ekki þörf fyrir aðgerðir innanlands, það er að segja við njótum ennþá frelsisins hér innanlands án allra takmarkana,“ sagði Bjarni í samtali við blaðamann á tröppum Stjórnarráðsins að loknum ríkisstjórnarfundi.
Spurður hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til að aðgerðunum verði aflétt segir hann það góða spurningu en ekki fyrir sig að svara.
„Mér finnst mikilvægt að við njótum góðs af þessari miklu þátttöku í bólusetningum og göngum ekki lengra heldur en aðstæður kalla á. Hér er í fyrsta skipti verið að leggja upp með það að skyndipróf geti verið grundvöllur fyrir komu inn í landið, og hvenær ástæða væri til að bakka með það væri væntanlega þegar í ljós kemur, og við höfum frekari gögn um að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af heilsu fólks, þrátt fyrir einhverja útbreiðslu smita, ég vænti þess,“ segir hann.
Þannig að það mætti lýsa þessu sem fyrirbyggjandi aðgerð, ef bóluefnin skyldu ekki virka jafn vel og vonast er til?
„Þannig skil ég málið, já.“
Einhverjir gætu velt fyrir sér hvort að þetta séu nógu sterk rök fyrir því að setja takmarkanir á ferðafrelsi, þegar engar vísbendingar eru komnar fram um að Covid sé hættulegt lífi og limum bólusettra. Hvað myndirðu segja við því?
„Jú, ég hef einmitt verið að spyrja mig þeirrar spurningar. Svörin sem maður fær er að það sé óvissa.“
Ertu sáttur við þau svör?
„Ég hef fyrst og fremst séð vísbendingar um að almennar bólusetningar virðast vera að slá mjög verulega á líkurnar á dauðsföllum og innlögnum, það eru gögnin sem ég hef séð. Ég hef ekki séð neitt annað.“