Svandís segir aðgerðirnar „mjög mildar“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessar aðgerðir sem við erum að leggja til núna eru í raun mjög mildar. Við erum ekki að leggja til sóttkví, við erum ekki að leggja til mikið tilstand við að afla sér þessara prófa sem krafist verður,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

Svandís sat ekki fund ríkisstjórnarinnar í dag, en hún segir málið hafa verið tekið fyrir á ráðherranefndarfundi í gær. „Á ráðherranefndarfundum sitja einnig sérfræðingar, þannig að sóttvarnalæknir var á þeim fundi í gær og þar ræddum við þetta fram og til baka, líkt og venjan er á þeim fundum.“

Fóru ekki í öllu að minnisblaði Þórólfs

Svandís segir aðgerðirnar sem hún leggur fyrir nú í dag snúast um tvennt. Annars vegar að skila veiruprófi, en hún bendir á að það sem sé frábrugðið núna miðað við hvað verið hefur í baráttunni sé möguleikinn á hraðprófi.

„Nú er heimilt að nota þessi hraðpróf, en það er gert með því markmiði að þetta sé eins lítið íþyngjandi og mögulegt er.“

Hins vegar sé síðan mælst til þess að Íslendingar eða þeir sem eru með tengslanet hér heima, fari í skimun innan sólarhrings eftir heimkomu.

Sóttvarnalæknir hafði lagt til að Íslendingar yrðu skyldaðir til þess að fara í skimun við heimkomu, en það var mat ráðherra og ráðuneytisins að ekki væri hægt að taka íslenskar kennitölur út fyrir sviga, slíkt væri brot á jafnræðisreglunni.

Ekki stefnubreyting hjá stjórnvöldum

Spurð hvort samstaða hafi verið um málið innan ríkisstjórnarinnar segir Svandís:

„Við höfum haft þann háttinn á að þrátt fyrir að þetta sé stjórnskipuleg ákvörðun heilbrigðisráðherra, þá förum við í gegnum þessar ákvarðanir í ríkisstjórn og það hefur gefist vel í baráttunni.“

Svandís segist telja að ekki sé um að ræða stefnubreytingu hjá stjórnvöldum, þrátt fyrir að markmiðið undanfarin misseri hafi snúið að bólusetningu landsmanna og í kjölfarið að afléttingu takmarkana.

Hún bendir á að öllum takmörkunum innanlands hafi verið aflétt, en segir einnig ákveðnar hliðar baráttunnar breytilegar.

„Við sjáum til dæmis núna að bólusetningarnar eru ekki að virka eins vel og við vonuðum vegna Delta-afbrigðisins og við verðum því að hafa varann á. Við reynum að tryggja fyrirsjáanleika eins og hægt er.“

Vonar að glíman við veiruna verði ekki pólitískt bitbein

Spurð hvort að komandi kosningar og kosningabarátta setji strik í reikninginn er varðar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda segir Svandís:

„Ég vona ekki. Það hefur verið okkar gæfa að glíman við veiruna hefur ekki verið pólitískt bitbein. Stakir þingmenn hafa lýst efasemdum á einhverjum tímapunktum en í meginatriðum höfum við verið sammála. Ég vona að svo verði áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert