Vonbrigði að grípa þurfi til aðgerða

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir vonbrigði sér efst í …
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir vonbrigði sér efst í huga. mbl.is/RAX

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við mbl.is að vonbrigði séu henni efst í huga sökum þess að stjórnvöld telji nauðsynlegt að grípa til hertra aðgerða á landamærunum á þessum tímapunkti.

Aðgerðirn­ar taka gildi eft­ir viku, en í þeim felst að bólu­sett­ir ferðamenn sem hingað koma þurfi jafn­framt að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi. 

Þar að auki verður mælst til þess að þeir sem bú­sett­ir eru hér á landi eða hafa hér tengslanet og koma að utan fari í sýna­töku sól­ar­hring eft­ir kom­una til lands­ins. Það verður þó ekki skylda líkt og fram­vís­un PCR-prófa.

Bjarnheiður segir ákveðins ósamræmis gæta í aðgerðum og yfirlýsingum stjórnvalda og minnir á að það séu ekki ferðamenn sem dreifi veirunni hér innanlands, Íslendingar sjái helst um það.

„Þetta er í ákveðnu ósamræmi við það sem stjórnvöld voru búin að gefa út, þ.e. þessi bólusetningaráætlun og sóttvarnaraðgerðir í samræmi við hana,“ segir Bjarnheiður.

Hraðprófin huggun harmi gegn

Hún segir þó jákvætt að ákveðið hafi verið að taka gild hraðpróf, eða svo kölluð antigen-próf. Það breyti miklu fyrir ferðamenn sem koma til landsins enda auðveldara að nálgast slík próf sem og ódýrara.

Hefðu hraðprófin ekki verið hluti af aðgerðunum segir Bjarnheiður að afleiðingarnar hefðu mögulega orðið „katastrófa fyrir ferðaþjónustuna,“ en hún segir aðgerðirnar í sjálfu sér ekki setja ferðaþjónustuna í uppnám.

„Þetta er aukið flækjustig og eitt skrefið í viðbót sem við vorum að vonast til að við værum komin út úr.“

Breyttar forsendur

Hún segir aðgerðirnar kosta einhverja vinnu en senda þarf upplýsingar til allra þeirra sem eiga bókaðar ferðir hingað til lands og upplýsa þá um stöðu mála.

„Þetta eru ekki þær forsendur sem við höfum verið að selja ferðir á og það þarf að láta þetta fólk vita af breyttum aðstæðum.“

Spurð hvort hún telji ekki nægilega mikið hlustað á ferðaþjónustuna við ákvörðunartöku segir Bjarnheiður: „Okkar hlutverk er náttúrlega að benda á afleiðingarnar af sóttvarnaraðgerðum á ferðaþjónustu og það er það sem við höfum verið að gera. Stundum er hlustað en stundum ekki. En við vorum og erum ekki fylgjandi þessum aðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert