Allir með væg einkenni

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans, segir alla þá sem greinst hafa smitaðir af kórónuveirunni undanfarið falla í grænan flokk. Þeir eru þar af leiðandi einungis með væg einkenni Covid-19.

„Það er verið að kóða þá síðustu sem greindust í gær, en það virðast allir vera grænir,“ segir Runólfur um þá sem greindust smitaðir í gær.

Frá upphafi faraldursins hefur göngudeildin notast við litakóðunarkerfi til þess að flokka alvarleika einkenna. Þeir sem teljast með væg einkenni eru í grænum flokki. Væg einkenni eru lítil sem engin andþyngsli, hósti eða hiti. Þegar smitaðir einstaklingar finna fyrir þessum einkennum aukast, falla þeir í gulan flokk. Í rauðum flokki eru þeir sem upplifa veruleg andþyngsli og mikinn hita.

„Allir þeir sem eru metnir sem gulir eða rauðir í símtalsgreiningu eru kallaðir inn til skoðunar og þá metið hvort grípa þurfi inn í með viðeigandi meðferð,“ segir Runólfur.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans. Ljósmynd/Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir

Flokkarnir vel skilgreindir

Runólfur segir alla sem smitast fá símtal og þar sé unnið eftir ákveðnum gátlista til þess að meta alvarleika einkenna. „Hvert stig er þá skilgreint mjög vel og hefur verið fjallað um þetta kerfi í vísindagreinum.“

Runólfur bendir einnig á að þrátt fyrir að sumir þurfi á spítalainnlögn að halda sé ekki endilega öruggt að það sé af völdum veirunnar. „Vandamál eins og vökvaskortur getur komið upp. Við lítum samt ekki á það sem alvarleg einkenni vegna Covid-19 en það getur samt valdið því að fólk þarf að leggjast inn á spítala.“

„Brattara en ég átti von á“

Spurður út í stöðu mála í faraldrinum segir Runólfur: „Við sáum það fyrir helgi að ljóst var að veiran var búin að dreifa sér í samfélagið. En ég verð samt að segja að þetta er brattara en ég átti von á.“ Þar vísar hann þá aðallega í tölur gærdagsins, en 44 greindust smitaðir, þar af 38 innanlands.

Hvort hann telji þær aðgerðir sem kynntar voru í gær rökrétt skref segir hann að mikilvægt sé að reyna eftir fremsta megni að hefta útbreiðslu veirunnar og liður í því sé að tryggja að „það berist ekki meira og meira af veirunni inn með ferðamönnum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert