Allt markaðsefni drykkjarframleiðandans State Energy hefur verið fjarlægt úr verslunum Hagkaupa. Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður er andlit drykkjarins.
Gylfi Þór er til rannsóknar lögregluyfirvalda á Englandi vegna gruns um brot gegn barni, eins og heimildir mbl.is herma.
Fyrr í dag sagði Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, við mbl.is að líklega yrði það rætt að fjarlægja allt markaðsefni með Gylfa í verslunum Hagkaupa. Í samtali við mbl.is nú síðdegis staðfestir Sigurður að allt markaðsefni með Gylfa hafi þegar verið fjarlægt.
Drykkurinn sjálfur, sem skartar ekki myndum af Gylfa, er þó enn til sölu.
„Við fórum bara yfir þetta með innflutningsaðilanum í morgun og niðurstaðan var sem sagt sú að hann ætlaði að fara hringinn og breyta öllu markaðsefni,“ segir Sigurður.
„Þannig að ég get staðfest að það er búið að fjarlægja allt markaðsefnið.“