Landspítali tilkynnti í dag að reglur um grímuskyldu á spítalanum yrðu hertar þegar í stað vegna útbreidds kórónuveirusmits í samfélaginu og „margra stakra atburða sem tengjast Landspítala beint“.
Í tilkynningu frá spítalanum segir að farsóttanefnd spítalans sjái sér ekki annað fært en að herða grímuskyldu strax.
„Allir starfsmenn á öllum starfsstöðvum skulu bera grímu sem aðeins má taka niður til að matast en þá skal gæta að eins metra reglu. Allir heimsóknargestir og aðrir sem eiga erindi inn á spítalann skulu bera grímu eins og áður.“
Í tilkynningunni kemur fram að inniliggjandi sjúklingar þurfi ekki að bera grímu nema þegar þeir fara af deild í rannsóknir eða meðferðir.
Alls greindust 38 innanlandssmit í gær og voru þar af níu í sóttkví. Sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í dag að smitin hefðu dreift sér en flestir sem hafa greinast eru bólusettir. Þá sagði hann einnig að hinir smituðu væru einkennalitlir og meðalaldur þeirra um 30 ár.