Verulegur munur er á fylgi sumra stjórnmálaflokka eftir kynferði kjósenda. Hann er langmestur þegar litið er til stuðningsfólks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. 18,7% kvenna styðja flokkinn, en aðeins 5,1% karla. Það þýðir að af hverjum fimm stuðningsmönnum flokksins lætur nærri að fjórir séu konur, en aðeins einn karl.
Meðal stuðningsfólks Samfylkingarinnar eru einnig mun fleiri konur en karlar, þótt munurinn sé ekki jafnmikill og hjá Vinstri-grænum.
Á hinn bóginn er hlutfallinu þveröfugt farið meðal stuðningsmanna Viðreisnar, þar eru karlar mun fleiri en konurnar.
Svipaða sögu er að segja af Sjálfstæðisflokknum, þótt þar skeiki ekki jafnmiklu og hjá Viðreisn. Þar eru samt þrír karlar á hverjar tvær konur sem segjast myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú.
Minni munur er í stuðningsmannaliði annarra flokka og hann er nánast enginn hjá Pírötum og Miðflokki og óverulegur í stuðningsmannaliði Sósíalista, þótt þar hafi karlar vinninginn.