80 manns vilja selja þjóðhátíðarmiða sína

Frá Þjóðhátíð 2018.
Frá Þjóðhátíð 2018. Ófeigur Lýðsson

Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar ÍBV, segir nefndina ennþá stefna að því að halda hefðbundna Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina þrátt fyrir uppsveiflu í faraldrinum. Um 80 hátíðarmiðar eru nú í endursölu í facebookhópnum Þjóðhátíð í Eyjum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur viðrað áhyggjur af hópsmiti á Þjóðhátíð: „Á stað eins og Þjóðhátíð get­ur einn ein­stak­ling­ur fengið ansi mikið og út­breitt smit eft­ir eina helgi sem væri mjög erfitt að eiga við. Við gæt­um fengið hundruð og þúsund­ir smita eft­ir slíkt.“

Forsala kláraðist fyrir helgi

Hörður segir nokkra hafa óskað eftir endurgreiðslu á hátíðarmiðum en miðasala gangi annars sinn vangang, forsala hafi klárast fyrir helgi: „Það eru fleiri að kaupa miða en óska eftir endurgreiðslu, við getum orðað þetta þannig,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Í facebookhópnum Þjóðhátíð í Eyjum settu fjölmargir miðana sína á sölu í kjölfar frétta af þeim 56 smitum sem greindust innanlands í gær. Um 80 miðar á þjóðhátíð hafa verið auglýstir til sölu seinasta sólarhringinn samanborið við aðeins tæpa 20 fyrir rúmri viku þann 12. júlí.

Viðbragðsáætlanir frá því í fyrra 

Hörður Orri segir enga eiginlega varaáætlun í kortunum fari svo að stjórnvöld herði takmarkanir í einhverjum mæli. „Við höfum rætt málið en það er ekkert á borðinu eins og er. Við búum að áætlunum frá því í fyrra en eins og leikar standa nú miðast allt við að við munum halda eðlilega Þjóðhátíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert