Einn var lagður inn á spítala í gær með einkenni Covid-19. Viðkomandi var fullbólusettur en ekki er vitað hvort einkennin séu alvarleg.
Alls greindust 56 innanlandssmit í gær en þar af voru 38 utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það meira en hann vonaðist til.
„Það hefði kannski verið óskhyggja því við vitum að þetta er í úbreiðslu og það gerist mjög hratt,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Smitin eru öll af Delta-afbrigði veirunnar og má tengja tvo stærstu hópana sem smituðust annars vegar til skemmtistaðarins í Bankastræti og hins vegar hóps sem fór utan til London í ferð, samkvæmt Þórólfi.
Hann segir að tillögur að aðgerðum innanlands séu í skoðun. „Það er bara í skoðun með mínu fólki og við erum líka í viðræðum við stjórnvöld og við þurfum bara að skoða það og þá hvenær tími kemur til þess að gera eitthvað slíkt. En auðvitað eru það stjórnvöld sem ákveða það endanlega,“ segir hann.
Spurður hvort takmarkanir verði settar á til að koma í veg fyrir að Þjóðhátíð og aðrar hátíðir um verslunarmannahelgina fari fram segist hann ekki geta sagt til um það en bætir þó við:
„Á stað eins og Þjóðhátíð getur einn einstaklingur fengið ansi mikið og útbreitt smit eftir eina helgi sem væri mjög erfitt að eiga við. Við gætum fengið hundruð og þúsundir smita eftir slíkt.“
Hann segir rannsóknir sýna að bólusetning veiti góða vernd gegn alvarlegum sjúkdómum og dauðsföllum, eða um 90 prósent. Hins vegar sé veiran mjög smitandi og alvarlegt ástand gæti skapast ef margir smituðust, þó að eiginlegt hlutfall alvarlega veikra væri lágt.