Ekki lokað neinum dyrum

Ólafur Ísleifsson og Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir.
Ólafur Ísleifsson og Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir. Samsett mynd

„Ég held að það sé óhætt að segja að hljóðið í mönnum er misjafnt,“ segir Ólafur Ísleifsson, núverandi þingmaður Miðflokksins í Reykjavík norður. Framboðslisti Miðflokksins í kjördæminu var samþykktur á félagsfundi í fyrradag. Ólafur er ekki meðal sex efstu manna á lista flokksins en hann segist ekki hafa sóst eftir sæti á lista til þess að leysa pattstöðu sem upp var komin við uppstillingu framboðslistans í kjördæminu. Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir, lögfræðingur og sáttamiðlari, leiðir listann.

Enn á eftir að stilla upp á lista flokksins í Reykjavík suður en tillaga uppstillingarnefndar var felld í síðustu viku. Félagsmenn munu því kjósa oddvita, eins og kom fram í blaðinu í gær, ekki liggur fyrir hvernig skipað verður í önnur sæti listans.

Spurður hvaðan sú ákvörðun kemur að margir lykilmenn flokksins, svo sem Karl Gauti Hjaltason, Þorsteinn Sæmundsson og Gunnar Bragi Sveinsson, séu ekki í oddvitasæti á listum flokksins sem hafa verið birtir hingað til segist Ólafur ekki vilja tjá sig um það enda sé það viðkvæmt. „Það er út af fyrir sig hægt að setja spurningarmerki við það,“ segir Ólafur og bætir við að það séu margar hliðar á málinu. Tekið skal fram að Gunnar Bragi gaf ekki kost á sér áfram í Suðvesturkjördæmi.

„Ég hef ekki lokað neinum dyrum að baki mér,“ segir Ólafur spurður hver hans næstu skref séu. „Þessi mál hafa tekið langan tíma og reynt á sums staðar.“

Miðflokkurinn mælist nú með fylgi um og yfir 5%, fékk tæp 11% atkvæða í síðustu alþingiskosningum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert