Ætla má að tapaður virðisauki í ferðaþjónustu vegna kórónuveirunnar á árinu 2020 hafi verið um 149 milljarðar króna og er þá miðað við að fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi hefði annars verið um 2 milljónir eins og spáð var. Þetta eru niðurstöður skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF).
Skýrslan er hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálstofu 2021-2023. Megintilgangur skýrslunnar var að hugleiða hvernig ferðaþjónustan getur mætt breytileika og staðið erfið tímabil af sér. Segir í tilkynningu að það sé ekki aðeins grunneftirspurnin sem getur verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður eins og gengi krónunnar, kjarasamningar og verkföll og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að ferðaþjónustan hafi verið illa í stakk búin til að takast á við niðursveiflu í hagkerfinu, hvað þá þann mikla samdrátt í eftirspurn sem varð í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Virðisauki á hvern ferðamann hefur dregist saman á hverju ári frá 2010 til 2018.
Þá segir einnig í skýrslunni að samdrátturinn í tekjum veitingahúsa hafi ekki verið eins mikill og í öðrum greinum ferðaþjónustunnar. Þá hafi hluti veitingastaða á landsbyggðinni upplifað sitt besta sumar árið 2020.
Ferðaþjónustufyrirtækjum var úthlutað 65% af þeim stuðningi sem ætlaður var rekstraraðilum á árinu 2020. „Rúm 44% af hlutabótum ársins 2020 fóru til einstaklinga í ferðaþjónustu. Hæst var hlutfallið hjá þeim sem störfuðu við veitingaþjónustu eða 14,4% og síðan til þeirra sem unnu á gististöðum eða 12,7%. Mestu fjármagni í tengslum við mótvægisaðgerðir til rekstraraðila ferðaþjónustunnar árið 2020 var úthlutað til fyrirtækja í gistirekstri eða 19,2%,“ segir í tilkynningu.