Hótelíbúðir í Herkastalann

Herkastalinn var byggður árið 1916.
Herkastalinn var byggður árið 1916. mbl.is/Árni Sæberg

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur gefið grænt ljós á að Herkastalanum í Kirkjustræti verði breytt úr gistiheimili í hótelíbúðir. Herkastalinn er sögufrægt hús í miðbæ Reykjavíkur. Hjálpræðisherinn rak þar samkomu- og gistihús í eina öld en ekki hefur verið starfsemi í húsinu síðan árið 2017.

Það er félagið Kastali fasteignafélag ehf., Katrínartúni 2, sem sendi umsóknina til Reykjavíkurborgar. Húsið er fjórar hæðir og er gert ráð fyrir hótelíbúðum á öllum hæðum. Á fyrstu hæð verður ein hótelíbúð ásamt móttöku, aðstöðu fyrir starfsfólk og geymsla. Þá verður lyftu komið fyrir þar sem nú er suður-stigahús. Inngangur fyrir húsið verður sá sami og áður, þ.e. frá Kirkjustræti.

Breytingar utanhúss verða þær, auk lyftunnar, að skipt verður um glugga og verða þeir í anda upprunalegu glugga hússins.

Það var niðurstaða verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að gera ekki skipulagslegar athugasemdir við erindið. Vegna sögu hússins, sem og skráningu þess sem gistihúss, sé fyrst og fremst um að ræða nýtt fyrirkomulag á sams konar rekstri. Áætluðum hámarksfjölda gesta fækkar úr 95 í 71 miðað við síðasta útgefna rekstrarleyfi frá júní 2017.

Húsið Kirkjustræti 2 er betur þekkt sem Herkastalinn, eða Kastalinn. Húsið er sögufrægt en það hýsti Hjálpræðisherinn frá byggingu hússins þangað til það var selt árið 2016. Hjálpræðisherinn hefur sem kunngt er byggt nýjan Herkastala við Suðurlandsbraut.

Herkastalinn er friðaður

Kirkjustræti 2 er byggt árið 1916 eftir teikningum Einars Erlendssonar og er fyrsta stórvirki hans í steinsteypu. Eftir breytingarnar verður það 4.211 fermetrar. Húsið nýtur aldursfriðunar og því þurfti að leita leyfis hjá Minjastofnun Íslands. Stofnunin hefur heimilað breytingar á húsinu, samkvæmt uppdráttum T.ark frá 8. júní 2021. Breyting á þaki vegna lyftustokks hafi ekki áhrif á ásýnd frá götu. Þá verði endurnýjun glugga í upprunlegri mynd mikil bót fyrir útlit hússins og byggingalist. Minjastofnun óskar eftir að fá teikningar af gluggum til skoðunar og samþykktar þegar þær liggja fyrir.

Í árslok 2015 tók Hjálpræðisherinn ákvörðun um að setja Herkastalann á sölu. Nýir eigendur höfðu áform um að breyta húsinu í hótel, en þau áform náðu ekki fram að ganga. Árið 2017 keypti fasteignafélagið Heild, sem var á vegum Gamma verðbréfasjóða, eignina. Eignin var enn á ný sett á sölu árið 2019.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka