Gunnhildur Sif Oddsdóttir
Hinn íslensk-kúbverski Yandy Nuñez Martines segir mótmæli á Austurvelli gegn ástandinu á Kúbu fyrr í kvöld hafa gengið mjög vel og staðist allar væntingar.
Á mótmælunum var þeim sem hafa mótmælt á Kúbu sýnd samstaða.
Slík mótmæli hafa verið haldin víðs vegar um heim á síðustu dögum. Yandy, sem stóð fyrir mótmælunum í dag, bendir á að í Bandaríkjunum hafi fjöldi fólks komið saman fyrir framan Hvíta húsið og í fjölmörgum öðrum löndum hafi Kúbverjar mótmælt fyrir utan sendiráð Kúbu.
Yandy segist ánægður með mætinguna í kvöld og telur að 30 til 40 manns hafi mætt á mótmælin en það búa um 100 Kúbverjar á Íslandi. Að sögn Yandys kröfðust mótmælendurnir frelsis. „Markmið mótmælanna er að sýna heiminum að Kúba hefur verið einræðisríki í meira en sextíu ár í sama stíl og Sovétríkin. Það kerfi féll, því svona kerfi ganga aldrei upp,“ segir Yandy.