Smit á bráðamóttöku Landspítalans

Smit greindist hjá starfsmanni bráðamóttöku Landspítalans í gær.
Smit greindist hjá starfsmanni bráðamóttöku Landspítalans í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður á bráðamóttöku Landspítalans greindist í gær smitaður af Covid-19. Þetta staðfestir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítalans, í samtali við mbl.is. Starfsmaðurinn var í vinnusóttkví, en hann hafði komið erlendis frá úr fríi viku áður en hann greinist.

„Viðkomandi starfsmaður var búinn að skila neikvæðu sýni eftir heimkomuna, en var þá í vinnusóttkví alla vikuna,“ segir Hildur. Um 100 manns eru nú komnir í vinnusóttkví vegna smitsins og verður sá hópur skimaður tvisvar sinnum fyrir sýkingu meðan á henni stendur.

Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítalans.
Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítalans. Ljósmynd/Brynjar Gauti

Grímuskylda var hert á Landspítalanum í gær eins og mbl.is greindi frá, en Hildur segir starfsmenn einnig duglega við þrif og allt sé sprittað í bak og fyrir. Þeir sem eru í vinnusóttkví mega mæta til vinnu, en þurfa að vera með grímu öllum stundum og gæta fyllstu varúðar. Þá eru tilmæli til allra þeirra sem eru í slíkri sóttkví á spítalanum að fara varlega utan vinnu.

„Í raun og veru myndi ég vilja biðla til alls okkar starfsfólks að fara varlega utan vinnu,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert