„Við minnkuðum hana aðeins fyrr í sumar en settum hana aftur á í gær,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Landspítalanum, um grímuskylduna, en nú þarf allt starfsfólk, sem og gestir, spítalans að bera grímu inni á sjúkrahúsinu undantekningarlaust.
Spurð hvort það sé á dagskránni að ráðast í frekari aðgerðir innan spítalans segir hún að þau hafi verið undanfarna daga að breyta einu og öðru.
„Grímuskyldan er það nýjasta, en í fyrradag tóku gildi nýjar reglur fyrir starfsfólk sem kemur erlendis frá. Bólusett starfsfólk þarf nú að fara í tvöfalda skimun með fimm daga vinnusóttkví á milli,“ segir hún og bætir við að þeir óbólusettu, sem eru mjög fáir, fylgi þeim reglum í samfélaginu hverju sinni.
Núna séu reglurnar eins og þær voru fyrir bólusetningu.
„Fólk getur komið inn með neikvætt sýni, fer svo í fimm daga og vinnur í sóttkví og fer svo í annað sýni eftir fimm daga sem losar það úr sóttkví.“
Þar að auki er nú aftur farið að skima fyrir veirunni á Landakoti og Vífilsstöðum.
Þetta hafi auk þess verið stærsta breytingin sem lagst hefur í verið síðan í lok mars. „Við höfum í raun og veru ekki slakað svo mikið í sóttvarnarráðstöfunum inni á spítalanum, þannig að það er kannski ekki eftir mjög miklu að slægast í að gera mikið meira,“ segir Hildur.
„Eitt af því sem við gerðum í fyrri bylgjum, áður en við bólusettum, var að hópaskipta og hólfaskipta. Það er satt að segja afar erfitt að eiga við núna. Þetta er hásumarleyfistíminn og afar fáliðað þessar tvær vikur í kringum verslunarmannahelgi. Það er mjög snúið að skipta þeim litla mannskap,“ segir hún og bætir við að ekki sé hægt að takmarka að fólk fari á milli hólfa. Þó séu umgengnisreglur í gildi.
„Það eru ákveðnar varúðarráðstafanir við að fara á milli, eins og til dæmis að fara á milli deilda,“ segir hún og bætir við að fólk kunni orðið allar umgengnisreglur mjög vel.
„Við erum auðvitað búin að læra mjög mikið varðandi sóttvarnir í þessum faraldri.“
Voru það vonbrigði að þurfa að grípa til þessara aðgerða?
„Já, mér finnst það. Staðan er mikil vonbrigði. Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki beinlínis það sem maður átti von á og maður sér ekki alveg fyrir endann á þessu. Það er alltaf erfitt og snúið að þurfa að herða á og auðvitað gerir fólk allt sem maður biður það um, en það er erfitt. Það er íþyngjandi að vera með grímu allan daginn í svona vinnu.“