Viðskiptavinir kvarta yfir erlendu starfsfólki

Viðskiptavinir hafa kvartað undan því að starfsfólk hjá N1 sé …
Viðskiptavinir hafa kvartað undan því að starfsfólk hjá N1 sé ekki allt íslenskt. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekki við hæfi að tala svona við fólk sem er að reyna að skilja, og reyna að tala íslensku og reyna að standa sig vel,“ segir Jón Viðar Stefánsson, deildarstjóri verslunarsviðs hjá N1.

Að sögn Jóns Viðars kemur það fyrir að þeim berist kvartanir og að viðskiptavinir pirri sig á því að allt starfsfólk hjá N1 sé ekki íslenskt, stundum kemur það fyrir að viðskiptavinir kvarti beint við starfsfólkið.

„Auðvitað er þetta bara brotabrot þeirra sem koma, langflestir eru bara kurteisir og almennilegir, en það kemur alveg fyrir að við fáum, sérstaklega núna þegar það er mikið að gera, þessar ábendingar og kvartanir frá viðskiptavinum um að það sé ekki eingöngu íslenskt starfsfólk sem vinni hjá okkur,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar Stefánsson, deildarstjóri verslunarsviðs hjá N1.
Jón Viðar Stefánsson, deildarstjóri verslunarsviðs hjá N1. Ljósmynd/Aðsend

Kvartanirnar snúa að því að starfsfólkið tali ekki nógu góða íslensku. Jón Viðar bendir þó á að þó svo allt starfsfólkið tali ekki íslensku að þá geri það sitt besta til að skilja tungumálið og mörg hver þeirra skilji íslensku þó svo þau geti kannski ekki alveg talað tungumálið.

Þá segir Jón Viðar starfsfólkinu sárna þegar það fær slíkar kvartanir og bendir á að það sé „alveg glatað“ að fá slíkar kvartanir í andlitið.

Ekki krafa að starfsfólkið sé íslenskt

Jón Viðar segir það alls ekki krafa hjá fyrirtækinu að starfsfólk þurfi að vera íslenskt og bendir á að eins og vinnumarkaðurinn sé núna sé það ekki einu sinni hægt. „Við erum bara að leita að fólki sem að vill vinna í góðu og skemmtilegu umhverfi þar sem það er oft á tíðum mikið að gera. Það er mjög mikið að gera hjá okkur núna, eins og hefur verið í allt sumar og um hálfgerða vertíð að ræða,“ segir Jón Viðar og bætir við:

„Við náttúrlega þurfum líka að hafa fólk sem talar útlensku vegna þess að náttúrlega er stór hluti af okkur viðskiptavinum útlendingar og okkar íslenska fólk talar kannski ekki allt góða ensku.“

Jón Viðar segir það hafa komið honum mjög á óvart að fólk kvarti undan erlendu starfsfólki. „Hvort sem þú ert Íslendingur eða útlendingur að þá stendur fólkið okkar sig mjög vel, sérstaklega núna, í þessari miklu traffík. Við erum einstaklega stolt af starfsfólkinu okkar.“

Þá segist Jón Viðar hafa boðið öllum þeim íslenskumælandi Íslendingum, sem hafa kvartað undan erlendu starfsmönnunum, vinnu hjá N1. Enginn hefur þegið boðið enn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert