Tvítug stúlka að nafni Chelsea Pardoe hefur sett inn tilkynningu á Instagram-reikning sinn þar sem hún vill leiðrétta orðróm um að hún tengist máli Gylfa Þórs Sigurðssonar á beinan hátt. Svo virðist sem sögusagnir þar um hafi farið á flakk um netheima að undanförnu.
Í tilkynningunni segist hún hafa tekið eftir sögusögnunum sem hafi gengið um hana og meintan þátt hennar í málinu.
„Mig langar að leiðrétta þetta og taka það skýrt fram að ég er ekki stúlkan sem tengist máli knattspyrnumannsins Gylfa [Þórs] Sigurðssonar og ekkert er til í sögusögnum um það. Ég veit ekki einu sinni hver hann er og hef aldrei talað við hann.
Ég myndi kunna að meta það ef fólk tæki sér tíma í að lesa þetta til þess að koma í veg fyrir þetta hræðilega áreiti sem ég er að verða fyrir út af þessari lygasögu,“ skrifar Chelsea.