Gekk niður 96 tröppur á höndum fyrir gott málefni

Jón Sigurður Gunnarsson missti allan kraft úr höndunum undir lok …
Jón Sigurður Gunnarsson missti allan kraft úr höndunum undir lok göngunnar en segist klár í næstu sýningu. Mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Fimleikamaðurinn Jón Sigurður Gunnarsson gerði heiðarlega tilraun til að ganga niður kirkjutröppur Akureyrarkirkju á höndum í dag. Tröppurnar eru 108 en Jóni tókst að ganga niður 96 þeirra. Dáðin var drýgð til styrktar Píeta-samtökunum og voru hluti af fimleikahring Fimleikasambands Íslands.

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Jóni var hann í óða önn við að setja upp Akureyrarsýningu hringsins og félagar hans þegar byrjaðir að hita upp.

Áragömul hugmynd

Hann segir hugmyndina af því að labba niður tröppurnar víðfrægu hafa vaknað fyrir mörgum árum þegar hann var staddur á Akureyri, „ég hef prófað þetta nokkrum sinnum síðan þá.“ Jón segist hafa séð leik á borði núna í sumar: „Þá gátum við vakið athygli á sýningunni ásamt því að láta gott af okkur leiða.“

Jón segir tröppurnar góðan vettvang fyrir svona lagað þar sem þær séu kennileyti bæjarins: „Mér hefur alltaf þótt þetta heillandi áskorun. Þetta eru mjög margar tröppur og það er þægilegt að labba niður þær, hæð hvers þreps er mjög hentug og áferðin á þeim ekki of gróf.“ Jón er sérfræðingur í handstöðu og áhaldafimleikum ásamt því að sýna handstöðu í sirkus.

12 þrepum frá markmiðinu

Þrátt fyrir góðan undirbúning var Jón 12 þrepum frá því að ná þessu háleita markmiði. Fallið var ákveðið sjónarspil þar sem Jón féll rakleiðis á andlitið. „Þetta var dramatískt! Ég fékk mjög góðan stuðning frá viðstöddum en þegar ég var kominn í næst síðustu þrepin var líkaminn bara búinn að gefast upp. Það var enginn kraftur í höndunum og ég missti jafnvægislínuna. Hendurnar gátu einfaldlega ekki meira og ég missti allan kraft.“ Hægt er að sjá myndband af tilrauninni hér fyrir neðan: 

Sýning næsta verkefni

Þrátt fallið í lok göngunnar er Jón hvergi banginn og var á leiðinni rakleiðis á sýningu eftir viðtalið: „Já já, ég verð með handstöðuatriði á sýningunni!“ Næsta sýning fimleikafélagsins verður á laugardaginn á Egilstöðum, því næst á Selfossi þriðjudaginn 27. júlí og á miðvikudeginum lokast hringurinn í Garðabæ. Á síðustu tveimur sýningum mun kvennalandsliðið í fimleikum bætast í hópinn.

Jón segist ánægður með að geta styrkt gott málefni á meðan hann gekk þar sem Píeta-samtökin komi öllum við: „Þetta eru ekki bara fólk með sjálfsvígshugsanir heldur aðstoða samtökin líka aðstandendur þeirra. Við erum allir ungir menn á besta aldri sem er aldurshópur sem þarf oft á aðstoð samtakanna að halda.“

Píeta-samtökin opnuðu nýverið útibú á Akureyri en Jón og Fimleikasambandið hvöttu viðstadda til að styrkja samtökin á meðan viðburðinum stóð. Hægt er að leggja inn á samtökin í gegnum reikning þeirra 0301-26-041041, kennitala 410416-0690 eða á Aur með því slá inn notendanafnið „pieta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert