Ljúki ekki fyrr en faraldrinum lýkur alls staðar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að kórónuveirufaraldrinum ljúki ekki fyrr en honum ljúki um heim allan. Hann hyggst skila minnisblaði til ráðherra um aðgerðir innanlands í dag. 

78 smit greindust innanlands í gær og voru 19 þeirra í sóttkví. Útbreiðsla veirunnar innanlands bendir til þess að virkni bóluefna gegn Delta-afbrigði veirunnar sé minni en vonast var til að sögn Þórólfs.

Fram kom í máli Þórólfs að vernd bóluefna gegn smiti sé minni en talið var, þó að vernd gegn alvarlegum veikindum sé talin vera 90%. Nýjar upplýsingar frá Ísrael bendi til þess að vernd bóluefna gegn Delta-afbrigði veirunnar sé minni en talið hefur verið. 

Delta-afbrigðið sé í mikilli sókn í flestum löndum Evrópu og fjölgun innlagna á sjúkrahús. Þetta þýði að hér á landi gætum við séð útbreitt smit meðal bólusettra og verði útbreiðslan nógu mikil gætum við séð aukningu í alvarlegum veikindum og innlögnum þó að umrædd áhætta sé ekki vel þekkt. Hér á landi hafi tveir fullbólusettir þurft á innlögn að halda á síðastliðnum vikum. Þá séu sex undir nánu eftirliti Covid-göngudeildar Landspítalans sem gætu þurft á innlögn að halda á næstunni. 

Þórólfur sagði að ráðstafanir á landamærunum muni einar og sér ekki duga til þess að hefta úrbreiðslu veirunnar innanlands. Hann leggi því til aðgerðir innanlands, en vildi ekki greina frá því til hvað aðgerða yrði gripið. Þar sé þó eðlilegt að nýta þá reynslu sem fengist hefur í faraldrinum. 

Bólusett með bóluefni Moderna.
Bólusett með bóluefni Moderna. AFP

Faraldrinum hvergi nærri lokið

Þórólfur var á upplýsingafundinum spurður hvert endamarkmið með aðgerðum innanlands sé, fyrst grípa þurfi til aðgerða þrátt fyrir hátt hlutfall bólusettra. 

„Ég held að við þurfum að horfast í augu við það að Covid lýkur ekki fyrr en því lýkur í öllum heiminum. Við erum margbúin að tyggja þetta en það er eins og menn telji það hér á Íslandi að það sé nóg að hefta útbreiðsluna hér og þá sé Covid lokið en það er bara ekki þannig,“ sagði Þórólfur og bætti við:

„Ef við ætlum að hafa litlar takmarkanir innanlands þá þurfum við að hafa góð tók á landamærunum. Annars fáum við bara veiruna aftur inn og útbreiðslu. Við þurfum að hafa það í huga. Hversu lengi við þurfum að búa við það – ég held að það gæti verið, í einhverri mynd, í marga mánuði í viðbót.

Við þurfum að reyna að koma því þannig fyrir að það verði sem minnst íþyngjandi fyrir alla og við þurfum virkilega að horfast í augu við það að þetta er ekki bara einhver nokkurra vikna barátta sem lýkur svo og við getum tekið upp fyrra líf. Að mínu mati er óskynsamlegt að hugsa þannig. Þetta er lengri barátta en svo,“ sagði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert