Mögulega farið að síga á seinni hlutann

Hraunrennslið er nú aðeins 60-65% af því sem mældist lengst …
Hraunrennslið er nú aðeins 60-65% af því sem mældist lengst af í maí og júní. Vísbendingar eru um að farið sé að síga á seinni hluta gossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraunrennsli á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli hefur minnkað á síðustu þremur vikum og bendir það til að þrýstingur fari minnkandi í kerfinu. Þetta gæti bent til þess að farið sé að síga á seinni hlutann í gosinu, að því er segir á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Þessar ályktanir eru dregnar af mælingum á hraunflæði gossins en síðustu mælingar voru gerðar þann 19. júlí þegar mælingavél Isavia gerði sniðmælingar af hrauninu. Þar kemur í ljós að meðalhraunrennslið yfir 2.-19. júlí var 7,5 m3/s en þann 26.-júní til 2. júlí var það rímlega 10 m3/s.

Hraunið er nú 96 milljónir rúmmetrar og flatarmálið rétt tæpir 4 ferkílómetrar. Aukning í flatarmáli hefur verið lítil síðustu þrjár vikur þar sem hraunið hefur að langmestu leyti safnast fyrir í Meradölum og í brekkunni vestan þeirra en undafarnar tvær vikur hefur ekkert hraun runnið í Geldingadölum, Nátthaga og í Syðri Meradölum.

Skipta má gosinu í fjögur tímabil

Þá kemur fram í athugunum Jarðvísindastofnunar að skipta megi hrauntímabilinu í fjögur tímabil: Fyrsta tímabilið stóð yfir í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu hraunrennsli, að meðaltali 6m3/s. 

Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana en þá var hraunrennsli nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s. Eftir þetta tímabil hefur virknin haldist öll í einum gíg.

Þriðja tímabilið stóð í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní – þá var hraunrennslið nokkuð stöðugt, um 12 m3/s og hraun rann ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga. 

Fjórða tímabilið hófst í lok júní og einkenndist af kviðukenndri virkni. Mælingarnar í júlí sýna að meðalrennslið fer lækkandi og er aðeins 60-65% af því sem lengst af mældist í maí og júní.

Þetta bendir sem fyrr segir til þess að farið sé að síga á seinni hlutann í gosinu, þótt of snemmt sé að reyna að spá fyrir um hve lengi gosið muni standa, að mati sérfræðinga Jarðvísindastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert