Tveir skammtar af bóluefni Pfizer og AstraZeneca við Covid-19 veita góða vernd við sjúkdómseinkennum af völdum Delta-afbrigðis veirunnar sem hefur dreifst um heiminn undanfarið. Vörnin er næstum því jafn góð og við Alpha-afbrigðinu sem var áður ráðandi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu New England Journal of Medicine og fjallað um á vef Reuters.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar veita tveir skammtar af bóluefni Pfizer 88 prósenta vörn gegn sjúkdómseinkennum af völdum Delta-afbrigðisins, samanborið við 93,7 prósenta vörn gegn Alpha-afbrigðinu.
Tveir skammtar af bóluefni AstraZeneca veita 67 prósenta vörn gegn sjúkdómseinkennum af völdum Delta-afbrigðisins samkvæmt rannsókninni, en áður var talið að það veitti aðeins 60 prósenta vörn, samanborið við 74,5 prósenta vörn gegn Alpha-afbrigðinu.
„Aðeins minni háttar munur mældist á virkni bóluefnanna gagnvart Delta-afbrigðinu samanborið við Alpha-afbrigðið eftir að viðkomandi fengu tvo skammta,“ stendur í niðurstöðum rannsóknarinnar.
Mun minni vörn fæst af aðeins einum skammti af bóluefnunum. Einn skammtur af bóluefni Pfizer veitti 36 prósenta vörn einn skammtur af bóluefni AstraZeneca veitti 30 prósenta vörn.